„Ekki einu sinni Norðurlöndin uppfylla sjálfbærnimarkmið hvað varðar jafnréttismál“

01.11.16 | Fréttir
Juha Sipilä
Photographer
Magnus Fröderberg/norden.org
Jafnrétti er forsenda sjálfbærrar þróunar. Þessi boðskapur var kristaltær á leiðtogafundi Norðurlandaráðsþingsins í Kaupmannahöfn. Ennfremur þykja jafnréttismálin hafa stuðlað að sterkari samkennd og aukinni einingu um það hvað Norðurlönd standa fyrir.

Juha Sipilä, forsætisráðherra Finnlands, hóf mál sitt á því að heimurinn stæði betur að vígi hvað snertir sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna ef staða kvenna væri betri. 

„Ekki einu sinni Norðurlöndin uppfylla sjálfbærnimarkmið hvað varðar jafnréttismál, atvinnustig og loftslagsmál. Þar verðum við að leggja okkur betur fram. Það sem við getum vakið athygli á í sameiningu er norræna velferðarlíkanið, sem nýtur mikillar virðingar um allan heim. Kannski við getum gert það að útflutningsvöru,“ sagði Juha Sipilä.

Á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík fyrir ári síðan gátu orðaskipti norrænu forsætisráðherranna orðið hvöss. Stefan Löfven, forsætisráðherra Svía, hvatti starfssystkin sín til að taka aukna ábyrgð í málefnum flóttamanna, og það leyndi sér ekki að mikið ber á milli norrænu landanna þegar kemur að málefnum innflytjenda.

Á leiðtogafundi forsætisráðherranna og þingmannanna í ár í Kaupmannahöfn var fjallað um það hvað Norðurlönd geta gert í sameiningu til að stuðla að því að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna fram til ársins 2030 verði náð.

Sá styrkur sem býr í samfélögum okkar þegar kemur að jafnrétti og jafnræði hefur gert okkur að svæði þar sem samkeppnishæfni og samþætting er á heimsmælikvarða.

Staða kvenna mætti vera sterkari

Paavo Arhinmäki (vänst) lét ekki hjá líða að nefna að forsætisráðherra Finnlands hefði ekki viljað stuðla að auknu jafnrétti í Finnlandi með því að eyrnamerkja hluta af fæðingarorlofi handa feðrum. Hann spurði Eygló Harðardóttur samstarfsráðherra hvaða áhrif hið þrískipta fæðingarorlof hefði haft á ástandið í jafnréttismálum á Íslandi.

„Við erum afar stolt af fæðingarorlofskerfinu okkar, sem við vorum fljót að byggja upp eftir efnahagshrunið. Rannsóknir sýna að eftir því sem karlmenn taka meira foreldraorlof batnar staða kvenna á vinnumarkaði,“ sagði Eygló.

Britt Lundberg frá Álandseyjum, sem er í flokkahópi miðjumanna, lagði áherslu á það að Norðurlönd eru oft álitin eitt, sameinað svæði – einkum úr dálítilli fjarlægð.

„Við erum fordæmi sem getur vakið öðrum von. Það er afar góður grundvöllur fyrir sáttamiðlun,“ sagði hún.

Tækifæri Norðurlanda er núna

Forsætisráðherra Norðmanna, Erna Solberg, tók undir með síðustu ræðumönnum og sagði að nú væri tækifærið til að vekja athygli á jafnréttismálum í alþjóðlegu samhengi og tryggja aðkomu kvenna að öllu friðarstarfi. Um leið ættu Norðurlöndin að forðast það að þröngva eigin úrlausnum upp á önnur lönd.

„Sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna hafa það í för með sér að nú eru öll lönd þróunarlönd – einnig norrænu löndin,“ sagði hún.

Forsætisráðherra Svía, Stefan Löfven, minnti á kvöldverðinn sem bandarísku forsetahjónin buðu norrænum þjóðarleiðtogum og forsætisráðherrum til í vor, og sagði að Norðurlönd ættu að taka frumkvæði í því að ná sjálfbærnimarkmiðum SÞ.

„Við höfum dálítið sem er öðrum innblástur: Þann styrk sem býr í samfélögum okkar þegar kemur að jafnræði og jafnrétti. Hann hefur gert okkur að svæði þar sem samkeppnishæfni og samþætting er á heimsmælikvarða,“ sagði Stefan Löfven.