„Evrópusambandið þarfnast forystu Norðurlanda í loftslagsmálum“

25.01.18 | Fréttir
NR-rundabordssamtal om grönare transporter
Evrópa þarfnast forystu Norðurlandanna í loftslagsmálum nú þegar óvissa ríkir um framtíð Evrópusambandsins. Þetta sagði Halldór Þorgeirsson framkvæmdastjóri milliríkjamála á Skrifstofu rammasáttmála Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (UNFCCC) í hringborðsumræðum um skynsamlega loftslagsstefnu fyrir umhverfisvænni samgöngur sem Norðurlandaráð stóð fyrir í Stokkhólmi á miðvikudaginn.

Grundvallarbreytingar þurfa að koma til í öllum geirum til þess að hægt verði að koma til móts við loftslagsmarkmiðin – og hér þarf bæði að koma til framtíðarsýn og tilteknar aðgerðir og stjórntæki sem fá fólk til að breyta umhverfisvænt og velja samgöngur sem losa minna.

„Þetta snýst meira um að verja fénu skynsamlega heldur en að auka fé sem varið er til málefnisins, þetta snýst um réttar fjárfestingar. Við vitum nú að dýrasti kosturinn til lengri tíma litið er sá að grípa ekki til neinna aðgerða,“ sagði Halldór Þorgeirsson.

Þörf fyrir blandaðar lausnir

Að mati Katherine Richardson, prófessors við Kaupmannahafnarháskóla og fulltrúa í loftslagsráði Danmerkur skiptir máli að hugsa sjálfbært til lengri tíma.

„Fljótandi lífeldsneyti getur til dæmis verið góð hugmynd fram til 2030 en um það leyti verður lífmassinn orðinn dýrari og um 2050 verða komnar til hagkvæmari lausnir. Það skiptir máli að við lýsum ekki eina leið sem sigurvegara heldur leyfum mismunandi tækni að keppa innbyrðis,“ sagði Katherine Richardson.

Það að minnkandi losun koltvísýrings í landbúnaði – að minnsta kosti í Danmörku – jafnist út í gegnum notkun einkabíla reynist að mati Katherine Richardsons mörgum atvinnugreinum þungt í skauti.

– Að minnsta kosti liggur það fyrir að mati Katherine Richardson að markmið Evrópusambandsins um að draga úr losun um 80-95 prósent munu ekki nást án þess að bæði samgöngu- og landbúnaðargeirinn taki þátt í grænu umskiptunum.

Hjólreiðar og almenningssamgöngur

Karin Gaardsted (S, Danmörku), varaformaður sjálfbærninefndar Norðurlandaráðs benti á mikilvægi hljólreiða sem andsvar við aukinni notkun einkabíla.

„Það verður að vera auðveldara og greiðara að samtvinna notkun reiðhjóls og almenningssamgangna. Markmið Kaupmannahafnar er að verða reiðhjólavænasta borg í heimi árið 2020 og borgin hefur meðal annars lagt í metnaðarfulla fjáfestingu með því að leggja ofurhjólastíga frá úthverfunum inn í borgina,“ sagði Karin Gaardsted.

Forseti Norðurlandaráðs, hinn norski Michael Tetzschner (H) úr flokkahópi hægrimanna, lýsti eftir heildarmati á mismunandi ferðamátum þar sem einnig væri reiknað með kostnaði hvers farþega.

„Ef fólk fer að hjóla eða ganga kemur það niður á almenningssamgöngum. Því skiptir meira máli að fá fólk sem ferðast lengri leiðir á einkabíl til þess að fara að nota almenningssamgöngur. Fjarfestingarnar verða að vera skynsamlegar og innan sanngjarnra marka,“ sagði Michael Tetzchner.