„Vinnuumhverfi snýst um skipulag fremur en notalegheit“

29.11.17 | Fréttir
Anniken Hauglie
Photographer
Håkon Jacobsen
Nýsköpun í norrænu vinnuumhverfi getur verið lykillinn að áframhaldandi samkeppnishæfni. Fjarvera vegna veikinda er áhyggjuefni á mörgum Norðurlöndum, einkum meðal kvenna. Um leið stendur atvinnulífið frammi fyrir miklum breytingum með aukinni alþjóðlegri samkeppni og kröfum um að fleira fólk vinni lengur. Norrænu vinnumarkaðsráðherrarnir hyggjast kortleggja framfarir á þessu sviði.

„Vinnuumhverfið er vanmetið, tæki bæði til þess að auka atvinnu og til að takast á við atvinnulífið í framtíðinni,“ sagði Pål Molander, framkvæmdastjóri norsku vinnumálastofnunarinnar á fundi með norrænu vinnumarkaðsráðherrunum í Ósló í gær.

Þegar ráðherranefndin um vinnumál hélt síðasta fund ársins var boðið bæði fræðimönnum á sviði vinnumála og aðilum vinnumarkaðarins.  

Sjálfstæðir starfsmenn - norrænt gull

Pål Molander minnti á að Norðurlöndin eru hátekjusvæði með vel menntuðu, áhugasömu vinnuafli sem treystir sér vel til þess að leysa verkefni sjálfstætt. Áhugi og ábyrgð örva framleiðni - og eru um leið áhættuþættir vegna veikindafjarvista.

Vandinn er sá að í framtíðinni þarf að auka skilvirkni og afköst til þess að geta viðhaldið velferðarkerfinu.

„Við þurfum vinnuumhverfi sem stuðlar að framleiðni. Fleiri verða að vinna fulla vinnu og færri að brenna út og veikjast vegna vinnu sinnar. Í þessu sambandi tel ég að gott vinnuumhverfi snúist fremur um skipulag en notalegheit,“ sagði Anniken Hauglie, atvinnumálaráðherra Noregs og formaður ráðherranefndarinnar árið 2017.

Óljósar kröfur stuðla að þreytu

Hún vísaði til nýrra vinnuumhverfisrannsókna sem sýna að gallar á skipulagi vinnuumhverfis - átök um hlutverk, óljósar kröfur, óljós ábyrgðarsvið - stuðla að veikindum fólks.

Sænski vinnumálaráðherrann, Ylva Johansson, staðfesti að gallar á skipulagslegu og félagslegu vinnuumhverfi leiddi til vanheilsu meðal margs starfsfólks í Svíþjóð, ekki síst í heilbrigðisþjónustu og umönnun þar sem fjarvistir vegna veikinda eru miklar.

„Þegar við rannsökuðum af hverju konur eru oftar veikar veikar en karlar, var niðurstaðan sú að það snýst ekki um kyn. Þetta snýst meira um skipulag vinnunnar á þeim sviðum þar sem konur eru ráðandi, segir Ylva Johansson.

MeeToo er viðvörunarmerki

Hún bætti því við að MeToo-byltingin sem nú fer frá einni starfsgrein til annarrar sé viðvörunarmerki um að ekki sé unnið nægilega mikið með vinnuumhverfi.

Meira að segja í Danmörku er nú unnið að því hörðum höndum að snúa við neikvæðri þróun á vinnuumhverfi. Síðan í sumar hafa sérfræðingar og aðilar vinnumarkaðarins unnið saman að því að kortleggja vandamálin og reyna að hugsa upp alveg nýjar lausnir

„Við göngum út frá því að gott vinnuumhverfi gagnist framleiðni og þar með landinu í heild,“ sagði Lasse Boje, deildarstjóri, sem var staðgengill Troels Lund Poulsen ráðherra á fundinum.

Ráðherrarnir ákváðu að leggja aukna pólitíska áherslu á verkefni tengd vinnuumhverfi í ráðherranefndinni þar sem nauðsynlegt er að viðhalda hámarksframleiðni á Norðurlöndunum ef viðhalda á velferðarsamfélögunum.

Ráðherrarnir voru sammála um að halda áfram að skiptast á reynslu og góðum aðferðum sem stuðla að bættu vinnuumhverfi á Norðurlöndunum fimm.