Aðstæður og réttindi frumbyggja í brennidepli á norræn-kanadískri ráðstefnu

27.02.15 | Fréttir
Grønland
Photographer
Nikolaj Bock
Á ráðstefnunni „International Focus on Northern Development“ í Québec verður framtíðarþróun á norðlægum svæðum til umræðu, meðal annars hvað snertir frumbyggja á svæðunum. Af því tilefni hefur Norræna ráðherranefndin gefið út aðra skýrslu sína með yfirskriftinni „Arctic Human Development Report“, sem varpar ljósi á yfirstandandi breytingar á norðurslóðum.

Loftslagsbreytingar og hnattvæðing hafa áhrif á daglegt líf og aðstæður íbúa á norðurslóðum. Áskoranir og tækifæri sem því fylgja voru meðal áhersluatriða á stórri ráðstefnu sem Norræna ráðherranefndin og fylkisstjórn Québec í Kanada stóðu fyrir.

Á ráðstefnunni „International Focus on Northern Development“ var grænlenski róttæklingurinn Aqqaluk Lynge, stofnandi Inuit Human Rights Center, á meðal norrænu framsögumannanna.  Meðal umtalsefna hans var alþjóðlegt regluverk til að tryggja stöðu frumbyggja á Norðurslóðum á breytingatímum.

„Við höfum þegar á að skipa ýmsum gagnlegum verkfærum, svo sem alþjóðlegum reglum á borð við yfirlýsingu SÞ um réttindi frumbyggja og 32. grein Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, en samkvæmt henni eru ríkisstjórnir skyldugar til að greiða fyrir samskiptum við frumbyggja í málefnum tengdum efnahagsþróun. Nú þarf að láta verkin tala og koma fyrirliggjandi reglugerðum í framkvæmd,“ sagði Aqqaluk Lynge á ráðstefnunni í Québec.

Lynge hefur starfað með málefni sem tengjast réttindum frumbyggja, lífsháttum þeirra og virkni í 35 ár og hefur því mikla reynslu af alþjóðlegum og ríkisbundnum reglugerðum um þessi málefni.

Norræn reynsla mætir kanadískri

Þróunaráætlun Québec fyrir norðurslóðir, Plan Nord, er ætlað að stuðla að efnahagsþróun og þróun í velferðarmálum svo og samþættingu þar á milli.

Í ljósi þess er samvinna við frumbyggja í fylkinu – Inuu, Ischtee, Inúíta og Cree – nauðsynleg til að tryggja að sú efnahagsþróun, sem vænst er, muni einnig hafa í för með sér verðmætasköpun fyrir frumbyggjana.

Norðurlöndin og Norræna ráðherranefndin hafa mikla reynslu á þessu sviði í tengslum við samíska íbúa í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi, svo og Inúíta á Grænlandi.

Skýrslunni „Arctic Human Development Report“, sem Norræna ráðherranefndin gaf út nýverið, er ætlað að stuðla að auknum skilningi á umhverfistengdum og félagslegum breytingum á Norðurslóðum og áhrifum þeirra á daglegt líf almennings, þar á meðal frumbyggja.

Norðurlöndin hafa margra ára reynslu á þessu sviði í tengslum við samíska íbúa í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi, svo og Inúíta á Grænlandi.  Skýrsla Norrænu ráðherranefndarinnar sýnir fram á gildi aukins samstarfs Norðurlanda við hvert annað og við önnur norðlæg svæði, en slíkt samstarf er ráðstefnunni í Québec ætlað að efla.

Sjá dagskrá ráðstefnunnar „International Focus on Northern Development“.

Sjá einnig skýrsluna „Arctic Social Indicators“, sem Norræna ráðherranefndin gaf nýverið út.