Áhersla lögð á norræna reynslumiðlun

26.11.16 | Fréttir
Integrasjonsmøte Hilton København
Photographer
P. Wessel
Á óformlegum fundi norrænu ráðherranna á sviði aðlögunarmála og fulltrúa ráðuneytanna í Kaupmannahöfn þann 25. nóvember var samþykkt að halda áfram samstarfi um þekkingar- og reynslumiðlun á sviði aðlögunarmála.

Ráðherrarnir lýstu ánægju sinni með það að samstarfsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar um aðlögun flóttafólks og innflytjenda væri komin á fullan skrið. Helstu markmið áætlunarinnar eru miðlun og dreifing reynslu og þekkingar á sviði aðlögunarmála.

Í sameiginlegri yfirlýsingu aðlögunarráðherranna segir að norrænu löndin vilji læra af reynslu hvert annars á sviði aðlögunarmála og stuðla þannig að aukinni skilvirkni og árangri ýmissa aðgerða. Einkum er þörf á fræðilegri þekkingu á áhrifum aðgerða sem miða að því að koma innflytjendum á vinnumarkað sem fyrst eftir komuna til Norðurlanda.