Almedalen: Geta Norðurlönd lært af reynslu Þýskalands af aðlögun á vinnumarkaði?

06.07.16 | Fréttir
Almedalen 2016 - Integrering av nyanlända i Sverige och Tyskland
Fljótlegasta leiðin til að aðlaga innflytjendur að nýju landi felst í að útvega þeim vinnu. En hvers konar störf standa þeim til boða? Jafnvel Þýskaland er á hraðri leið frá láglaunalíkaninu, sagði Thorben Albrecht í umræðum sem fram fóru í norræna tjaldinu í Almedalen.

Er Þýskaland – það land ESB þar sem atvinnuleysi er minnst og sem tók á móti meira en milljón flóttamanna í fyrra – besta fyrirmynd Norðurlanda í þessum efnum? 

Þetta var til umræðu í norræna tjaldinu í Almedalen þar sem Thorben Albrecht frá þýska atvinnumálaráðuneytinu og sænskur kollegi hans, Erik Nilsson, báru saman bækur sínar. Aðrir þátttakendur í umræðunum voru fulltrúar Samtaka atvinnulífs í Svíþjóð (Svenskt Näringsliv) og Bandalags ríkisstarfsmanna (TCO), en hvor tveggja samtökin hafa nýlega látið vinna úttektir á þeim umbótum sem gerðar hafa verið á þýskum vinnumarkaði – og komist að ansi ólíkum niðurstöðum. 

Vilja varna því að nýir innflytjendur festist í láglaunastörfum

Thorben Albrecht lýsti ástandinu í Þýskalandi, þar sem fjórðungur nýlega aðfluttra er á aldrinum 18–25 ára; ungt fólk sem vill byrja að vinna sem fyrst til að geta sent peninga til fjölskyldunnar heima.

„Það er ekki rétt að láta þetta fólk daga uppi í ófaglærðum störfum, svo sem í byggingariðnaði og á veitingahúsum. Við verðum að leggja okkur fram um að mennta það til að sinna faglærðum störfum,“ sagði hann.

Tungumálakennsla fyrir hælisleitendur á meðan hælisumsókn er í ferli, úttekt á hæfni þeirra og kunnáttu, og boð um byrjunarstarf skömmu eftir komu – þetta eru þrír lykilþættir í aðlögunarstefnu Þýskalands, að sögn Thorbens Albrecht.

Í Þýskalandi hefur það tímabil, sem innflytjendur skulu sinna byrjunarstörfum, verið takmarkað við 18 mánuði til að draga úr hættu á því að þeir festist í láglaunastörfum.

„Ég held að vinnumarkaðurinn eins og hann leggur sig sé á hraðri leið frá láglaunastörfum,“ sagði Thorben Albrecht..

Erfitt fyrir innflytjendur að fá vinnu í smærri sveitarfélögum Svíþjóðar

Erik Nilsson sagði marga nýja innflytjendur í Svíþjóð setjast að í smærri sveitarfélögum landsins, og að þar ættu þeir erfiðara með að fá vinnu.

Þá gengi konum úr röðum innflytjenda erfiðlegar að fá vinnu en körlunum.

Einn af styrkleikum norræna vinnumarkaðslíkansins er sveigjanleiki þess. Jafnvel við spánnýjar aðstæður og með mikinn fjölda nýrra innflytjenda getum við fundið lausnir.

 „Við Svíar þurfum að bæta okkur í því að bjóða upp á tungumálakennslu og starfsþjálfun í bland, og efla fullorðinsfræðsluna,“ sagði Nilsson.

Breytingar á reglugerðum gætu skapað störf gegnum starfsmannaleigur

Edward Hamilton frá Samtökum atvinnulífs í Svíþjóð sagði að gott gengi á þýskum vinnumarkaði mætti að miklu leyti rekja til þess að Þjóðverjar hefðu skapað innflytjendum og flóttafólki betri forsendur til að aðlagast.

„Starfsmannaleigur í Þýskalandi hafa verið verulegt stökkbretti fyrir unga innflytjendur. Í Svíþjóð væri unnt að skapa 50 til 70 þúsund ný störf gegnum starfsmannaleigur, væri regluverkinu breytt,“ sagði Edward Hamilton.

Í nýrri skýrslu sinni, „Så vann Tyskland EM-guldet i jobbskapande – lärdomar för Sverige“, lofar Edward Hamilton hinar svonefndu Hartz-umbætur í Þýskalandi, þar sem tekið var á atvinnuleysi með „smástörfum“, launastjórnun og breyttu fyrirkomulagi almannatrygginga.

Ný sænsk stefna í málum hælisleitenda ýtir nýjum innflytjendum út í láglaunastörf

Í nýrri skýrslu stéttarfélagsins TCO, „Flawed Role Model? The economic performance of Germany and Sweden“, stendur að Hartz-umbæturnar hafi ekki leitt til fleiri starfa í raun. Þýskaland stytti vinnutíma og dreifði störfum á fleira starfsfólk, sem skapaði fleirum atvinnu, en varð einnig til þess að fjölga vinnandi fólki með lágar tekjur.

Svíþjóð á ekki að fara þá leið, sagði Åsa Odin Ekman frá TCO.

Hún telur að stefna Svíþjóðar í málefnum hælisleitenda, með skertum rétti til sameiningar fjölskyldna og tímabundnu dvalarleyfi, sé slæm vinnumarkaðsstefna.

„Nýlega aðfluttir læknar og verkfræðingar missa fljótt móðinn og orka ekki að stefna að því að fá atvinnu á sínu sviði. Við erum að ýta fólki út í láglaunastörf. Við ættum að beita okkur fyrir því að hlúa að kunnáttu og hæfni þess fólks sem kemur til Svíþjóðar,“ sagði Åsa Odin Ekman, og bætti við:

„Einn af styrkleikum norræna vinnumarkaðslíkansins er sveigjanleiki þess. Jafnvel við spánnýjar aðstæður og með mikinn fjölda nýrra innflytjenda getum við fundið lausnir.“