Document Actions

Alþjóðleg nöfn styðja norrænt sjálfbærniverkefni

Í tengslum við kynningu norrænu forsætisráðherranna á framtaksverkefninu Nordic Solutions to Global Challenges („Norrænar lausnir á hnattrænum viðfangsefnum“) á þriðjudag munu þrjár heimsþekktar konur taka til máls um mikilvægi verkefnisins: Gunhild Stordalen, stofnandi og forseti EAT-stofnunarinnar, Fadumo Dayib, fyrsti kvenkyns forsetaframbjóðandi Sómalíu, og Katherine Richardson, sérfræðingur í fræðilegum eftirfylgnihópi Sameinuðu þjóðanna vegna heimsmarkmiða SÞ um sjálfbæra þróun fram til ársins 2030.

29.05.2017

Gunhild Stordalen er ein af þremur alþjóðlega þekktum einstaklingum sem tjá sig um framtaksverkefni forsætisráðherranna.

Ljósmyndari
Linus Sundahl-Djerf

Innan vébanda sjálfbærniverkefnisins eru flaggskipsverkefni á sviðum grænna lausna, jafnréttismála, matvæla og velferðarmála, svo ljóst má vera að skýr tenging er við hnattræn sjálfbærnimarkmið SÞ fram til 2030.

„Norðurlöndin eru á meðal fremstu ríkja heims hvað varðar heilbrigðismál, sjálfbærni og jafnrétti. Framtaksverkefnið getur gegnt mikilvægu hlutverki við að miðla lausnum og frásögnum af góðum árangri til annarra heimshluta. Góðar matarlausnir eru lykillinn að því að ná hnattrænu sjálfbærnimarkmiðunum og standa við skuldbindingar Parísarsamkomulagsins á sviði loftslagsmála. Norðurlöndin eru í einstakri stöðu til að taka forystu í málefnum þekkingar, nýsköpunar, framleiðslu og stefnumótunar sem hefur það markmið að stuðla með sjálfbærum hætti að heilnæmu mataræði fyrir hinn sívaxandi íbúafjölda jarðarinnar,“ segir Gunhild Stordalen. 

Katherine Richardson sér greinilega kosti við norrænt samstarf í tengslum við þau sjálfbærnimarkmiðanna er varða orku- og loftslagslausnir.

„Parísarsamkomulagið skapaði eftirspurn eftir grænum lausnum og hörð samkeppni er um að bjóða bestu lausnirnar. Því er klókt af Norðurlöndum að eiga í samstarfi um orku- og loftslagslausnir á grundvelli sjálfbærra viðskiptalíkana,“ segir Richardson, sem gegnir forstöðu við vísindamiðstöðina Sustainable Science Centre við Kaupmannahafnarháskóla.

Norrænu löndin eru á meðal fremstu ríkja heims hvað varðar heilbrigðismál, sjálfbærni og jafnrétti. Verkefnið getur gegnt mikilvægu hlutverki við að miðla lausnum og frásögnum af góðum árangri til annarra heimshluta.

Fadumo Dayib, sem í dag er settur framkvæmdastjóri Jafnréttisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UN Women) í Sómalíu, kom til Finnlands sem flóttamaður á barnsaldri. Síðasta haust bauð hún sig fram til embættis forseta í Sómalíu með norræn gildi jafnréttis, jafnræðis og manngildis í farteskinu, og varð þar með fyrsti kvenkyns forsetaframbjóðandinn í sögu landsins.

„Finnland veitti mér menntun, og menntuninni fylgdi fjárhagslegt sjálfstæði. Velferðarkerfi og hagkerfi Norðurlanda hafa gert mér kleift að sameina starfsferil, menntun og fjölskyldulíf. Þetta vil ég hafa með mér til Sómalíu. Þess vegna bauð ég mig fram í kosningunum – til að hjálpa íbúum Sómalíu að öðlast sömu tækifæri og ég hef fengið,“ segir Fadumo Dayib.

Bein útsending frá kynningunni á Nordic Solutions to Global Challenges verður á slóðinni facebook.com/nordenen þriðjudaginn 30. maí kl 10:15 að dönskum tíma. Fylgist með fréttum af málinu á Twitter undir myllumerkinu #nordicsolutions

Tengiliðir