Anna Abrahamsson nýr forseti Norðurlandaráðs æskunnar

26.10.15 | Fréttir
Hið árlega þing Norðurlandaráðs æskunnar (UNR) fór fram í Reykjavík 23.–25. október 2015. Nýr forseti ráðsins var kjörinn á þinginu, Anna Abrahamsson frá Finnlandi og Nordiska Centerungdomens förbund. Í embættistíð sinni hyggst Abrahamsson efla hlutverk ungs fólks í norrænu samstarfi.

„Hnattvæðingin heldur áfram og hefur í för með sér ný úrlausnarefni og tækifæri fyrir norrænt samstarf, sem er einnig statt í mikilvægu umbótaferli. UNR gegnir því lykilhlutverki sem málpípa unga fólksins og til þess að styðja við hina norrænu framtíðarsýn. Norrænt samstarf á mikilvægt erindi, í daglegu lífi borgaranna jafnt sem á alþjóðlegum vettvangi. Norðurlandaráð æskunnar mun áfram leggja til ný sjónarhorn og nýjar lausnir,“ segir nýkjörinn forseti ráðsins, Anna Abrahamsson.

Auk forsetans skipa fulltrúar allra regnhlífasamtaka norrænna ungliðahreyfinga og fulltrúar allra Norðurlandanna hina nýju forsætisnefnd.

Þátttakendur á þinginu voru fulltrúar félagasamtaka og áheyrnarsamtaka frá öllum Norðurlöndunum og sjálfstjórnarsvæðunum, samtals um 80 einstaklingar. Umræðuefni á þinginu spönnuðu allt frá utanríkismálum til umhverfismála og málefna flóttafólks. Vonast er til þess að þær ályktanir sem samþykktar voru á þinginu verði teknar til umfjöllunar og ræddar í hinum ýmsu nefndum og flokkahópum Norðurlandaráðs.

Norrænt samstarf á mikilvægt erindi, í daglegu lífi borgaranna jafnt sem á alþjóðlegum vettvangi. Norðurlandaráð æskunnar mun áfram leggja til ný sjónarhorn og nýjar lausnir.

Forsætisnefnd Norðurlandaráðs æskunnar

Forseti: Anna Abrahamsson (Finnlandi, Nordiska Centerungdomens förbund), Sebastian Lukas Bych (Danmörku, Socialistisk Ungdom i Norden), Espen Krogh (Danmörku, Nordisk Ungkonservativ Union), Natan Kolbeinsson (Íslandi, Förbundet Nordens Socialdemokratiske Ungdom), Steffen Stustad (Danmörku, Nordens Liberale og Radikale Ungdom), Oskar Annermarken (Svíþjóð, Grön Ungdom i Norden), Carl Olehäll (Svíþjóð, Kristdemokratisk Ungdom i Norden), Thorgny Arwidson áheyrnarfulltrúi (Svíþjóð, Föreningarna Nordens Ungdomsförbund)

Vefsjónvarp

Hér tekur fráfarandi forseti, Kai Alajoki, viðtal við Önnu Abrahamsson. Viðtalið er tekið upp á þingi Norðurlandaráðs.