Atvinnuaðgerðir draga úr kostnaði vegna flóttafólks

26.04.17 | Fréttir
Lærer med elever ved computer
Photographer
Yadid Levy / Norden.org
Þrátt fyrir að nýbúar komist fljótt út á vinnumarkað á Norðurlöndum er það engin töfralausn fyrir aðlögun þeirra. Eftir nokkur ár í vinnu er hætt við að flóttafólk detti út af vinnumarkaði, einkum ef það er með litla menntun að baki, segir í niðurstöðum norskra og danskra rannsókna. Skortur á skattatekjum vegna atvinnuleysis er stærsti útgjaldaliður hins opinbera vegna móttöku flóttafólks.

Þrátt fyrir að fólkið komist fljótt í vinnu er hætt við að bakslag komi í aðlögunarferlið þegar liðin eru fimm til tíu ár. Greint er frá þessum óvæntu niðurstöðum í nýju tölublaði Nordic Economic Policy Review sem Norræna rannsóknastofnunin í skipulags- og byggðamálum (Nordregio) kynnti í Kaupmannahöfn 26. apríl 2017.  

„Munurinn á innflytjendum og innfæddum Norðmönnum á vinnumarkaði ætti að minnka eftir því sem innflytjendurnir búa lengur í Noregi. Við teljum að því sé öfugt farið. Að fimm til tíu árum liðnum breikkar bilið,“ segir Knut Røed, einn höfundur norsku rannsóknarskýrslunnar í ritinu.   

Einstaklingar frá láglaunalöndum með litla menntun að baki eru í mestri hættu á að detta út af vinnumarkaði.

Þeim bjóðast óöruggari störf og þeim er frekar hætt við að lenda í vinnuslysum eða verða sjúkraskrifaðir.

Norsk menntun tryggir vinnu í Noregi

Innflytjendur sem verða sér úti um norska framhaldsskólamenntun, bóklega eða verklega, eiga betri möguleika á að halda stöðu sinni á vinnumarkaði í Noregi, segir í skýrslunni.  

„Mikilvægt er að stjórnmálafólk herði aðgerðir í menntamálum og geri almannatryggingar starfsmiðaðri,“ segir Bernt Bratsberg, annar höfundanna.

Í Danmörku fjölgar þeim nýbúum sem fá vinnu fyrstu árin, en störfin virðast skammvinn því einnig þar í landi kemur afturkippur í aðlögunarferlið þegar liðin eru um tíu ár.

„Á ysta jaðri“

„Margt bendir til þess að þrátt fyrir að flóttafólk komist fljótt í vinnu sé það á ysta jaðri vinnumarkaðarins. Það eigi frekar á hættu að finna fyrir niðurskurði og eigi síður kost á því að breyta um starf,“ segir Marie Louise Schultz-Nielsen, höfundur danska kaflans í skýrslunni.

Niðurstöðurnar í Noregi og Danmörku sýna að ekki nægir ein stefna til aðlögunar nýbúa. Eigi þeir að ná fótfestu á vinnumarkaði er þörf á eftirfylgni og langtímastefnu sem miðar að því að hækka menntastigið og bæta tungumálakunnáttuna.

Flóttafólk í Svíþjóð virðist þurfa að bíða lengst eftir því að komast í vinnu. Helmingur þeirra sem fá hæli fær ekki vinnu fyrr en að fimm árum liðnum. Í því sambandi segja sérfræðingarnir að flýta þurfi fyrir viðurkenningu á erlendum prófum og setja menntaáætlanir í atvinnugreinum þar sem skortur er á vinnuafli.

Atvinnuleysi stærsti útgjaldaliður hins opinbera

Í síðustu skýrslu ritsins reiknar fræðimaðurinn Joakim Ruist út hvaða áhrif móttaka flóttafólks hefur á opinber fjármál. Hann bendir á að helstu áhrifin felist ekki í útgjöldum heldur skorti á skattatekjum vegna þess að nýbúar fá ekki vinnu.   

Norrænu löndin geta dregið úr kostnaði vegna móttöku flóttafólks með ýmsum aðgerðum til að stuðla að því að fólk nái betri fótfestu á vinnumarkaði.

Norræna ráðherranefndin hefur innleitt samstarfsáætlun um að styðja við aðlögunarstarf í löndunum. Áætlunin gildir til ársloka 2018 og fjárveiting hennar nemur 40 milljónum danskra króna.