Aukið samstarf Norðurlanda og Eystrasaltslandanna

23.09.15 | Fréttir
Större satsningar på nordiskt-baltiskt samarbete
Photographer
Mary Gestrin/Norden.org
Norrænu samstarfsráðherrarnir hyggjast efla samstarf við Eystrasaltslöndin og athafnasemi sína í löndunum. Með því að auka starfsemi sína í Eistlandi, Lettlandi og Litháen vilja ráðherrarnir stuðla að auknum stöðugleika á svæðinu. Helstu hvatar fyrir þessu eru breytingar á pólitísku ástandi á svæðinu og sú staðreynd að Norræna ráðherranefndin hefur hætt starfsemi sinni í Rússlandi.

Á fundi sínum í Kaupmannahöfn á mánudag ræddu samstarfsráðherrarnir ýmsar pólitískar aðgerðir í tengslum við Eystrasaltslöndin og samþykktu meðal annars nýjar og umfangsmiklar aðgerðir um stefnumótun í atvinnumálum, sem ætlað er að efla starfsemi lítilla og meðalstórra fyrirtækja í Eystrasaltslöndunum.

Við sama tækifæri samþykktu ráðherrarnir að koma á fót starfsemi á rússnesku í bænum Narva í Norðaustur-Eistlandi. 95% íbúa í Narva eru rússneskumælandi. Markmiðið með verkefninu er að auðvelda rússneskumælandi borgurum að aðlagast eistnesku samfélagi.

„Það gleður mig að Norræna ráðherranefndin sýni röggsemi og vilji styðja granna okkar í Eystrasaltslöndunum,“ segir samstarfsráðherra Danmerkur, Carl Holst. „Það er eðlilegt og mikilvægt að Norðurlöndin leggi mikla áherslu á samstarf við Eystrasaltslöndin.“

Í júní samþykktu samstarfsráðherrarnir áætlun sem hefur það að markmiði að styðja við hlutlæga rússneskumælandi fjölmiðla í Eystrasaltslöndunum. Framkvæmd áætlunarinnar er hafin, en hún felur m.a. í sér stuðning við blaðamannamenntun fyrir rússneskumælandi blaðamenn og eflingu hinnar rússneskumælandi sjónvarpsstöðvar ETV+ í Eistlandi.