Aukin samræming ESB-reglna á Norðurlöndum

26.09.14 | Fréttir
EU og Norden
Photographer
Silje Bergum Kinsten/norden.org
Forsenda áframhaldandi þróunar Norðurlanda sem opins svæðis án landamæra er virkara samstarf um málefni ESB. Þessu lýsti norræna stjórnsýsluhindranaráðið yfir í tengslum við fund Norðurlandaráðs í Tampere á þriðjudag.

Frjáls för milli landa og sveigjanlegur vinnumarkaður á Norðurlöndum verður æ þýðingarmeiri fyrir almenning eftir því sem ástand verður ótryggara á heimsvísu. En þróunin á Norðurlöndum er háð tilskipunum ESB.

Það hefur sýnt sig að nálgun landanna á sumar þessara tilskipana torveldar ekki aðeins árangursríka þróun á svæðinu, heldur beinlínis hindrar hana. Því telur stjórnsýsluhindranaráð að norrænu ríkisstjórnirnar ættu að grípa til frekari aðgerða til að samræma innleiðingu sameiginlegra reglna ESB.

Í aðdraganda þings Norðurlandaráðs í lok október er nú til umræðu tillaga þess efnis að það land, sem fari með formennsku Norrænu ráðherranefndarinnar á hverjum tíma, skuli leggja sérstakan metnað í að hafa stöðugt eftirlit með væntanlegum tilskipunum ESB, forgangsraða nýjum tilskipunum sem hafa sérstakt vægi fyrir tengsl milli norrænu landanna og bjóða ráðherrum frá hinum löndunum til samráðs um túlkun og innleiðingu þeirra.

Markmiðið er að hafa áhrif á aðlögun landanna að sameiginlegri Evrópulöggjöf með því að stuðla að opnum og virkum samskiptum og fyrirbyggja þannig að nýjar tilskipanir hafi neikvæð áhrif á þróunina á Norðurlöndum.

Eitt skref í átt að auknu samstarfi um þessi mál er fyrirhuguð heimsókn Norðurlandaráðs til Evrópuþingsins seinni part hausts.