Betra að hefja baráttuna gegn öfgastefnu þegar í skólunum

27.04.15 | Fréttir
Með betra samstarfi við borgaralegt samfélag geta menntastofnanir á öllum skólastigum gegnt stærra hlutverki en fram að þessu í baráttunni gegn útbreiðslu öfgastefnu meðal ungmenna. Þetta voru ráðherrar menntamála og rannsókna á Norðurlöndum sammála um á fundi sínum í Kaupmannahöfn sl. mánudag.

Það voru samstarfsráðherrar Norðurlanda sem komu útbreiðslu öfgastefnu meðal ungmenna á dagskrá menntamálaráðherranna. Fyrir fund samstarfsráðherranna í júní mun skrifstofa Norrænu ráðherranefndarinnar leggja fram áætlun um það hvernig Norðurlönd geti beitt sér með skilvirkari hætti fyrir lýðræði, samþættingu og öryggi í samfélögum okkar og unnið gegn aukinni útbreiðslu öfgastefnu meðal ungmenna. 

– Við vitum að dönsk ungmenni og ungmenni almennt á Norðurlöndum standa ótrúlega sterkt að vígi hvað varðar þekkingu á samfélaginu og lýðræðinu. En hjá okkur er líka lítill hópur, um 3-4%, sem stendur ákaflega illa einmitt hvað þetta varðar. Við þurfum að ná til þeirra, segir Christine Antorini, ráðherra menntamála og rannsókna í Danmörku.

– Rannsóknir sýna að menntakerfið gegnir lykilhlutverki í því að móta hvernig ungmenni bregðast við útbreiðslu öfgastefnu, segir Torbjørn Røe Isaksson, þekkingarmálaráðherra Noregs. Hættan á að ungmenni aðhyllist öfgastefnu minnkar til muna ef skólarnir geta gripið til ráðstafana sem vinna gegn því að ungmennum finnist þau utanveltu í samfélaginu. Því frekar sem ungmennum finnst þau vera hluti af samfélaginu og jafngild öðrum, þeim mun minni hætta er á að þau hrífist af boðskap öfgamannanna.

– Reglugerðir og lögfræði er hluti af því starfi sem þarf að vinna, segir Aida Hadzialic, ráðherra menntaskóla og þekkingarauka í Svíþjóð. En hvað varðar áþreifanlegri atriði þurfum við að byggja upp samheldnara samfélag þar sem einstaklingar hafa raunveruleg tækifæri til að hafa áhrif og taka þátt í þjóðfélagsumræðunni.

– Það er mikilvægt að þær aðgerðir sem samstarfsráðherrarnir taka ákvörðun um í sumar keppi ekki við heldur styðji við norræna samstarfssamninginn gegn útbreiðslu öfgastefnu sem fulltrúar dönsku, sænsku, finnsku og norsku ríkistjórnanna skrifuðu undir í janúar, segir Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.

Ráðherrarnir voru sammála um að mikilvægur þáttur í því að vinna gegn útbreiðslu öfgastefnu meðal ungmenna væri að starfa saman að þróun aðferða til að fá borgaralegt samfélag til að taka með ýmsum hætti þátt í menntuninni á mismunandi stigum.