Biophilia Bjarkar móti vísindafólk framtíðar

08.12.14 | Fréttir
Biophilia
Björk Guðmundsdóttir hefur unnið nýskapandi kennsluefni upp úr hinni einstöku breiðskífu Biophiliu í samstarfi við fjölda aðila úr vísinda- og listgreinum. Nú verður efninu dreift í grunnskóla á öllum Norðurlöndum með aðstoð Norrænu ráðherranefndarinnar.

Í nóvember síðastliðnum var samstarfi um menntaverkefnið Biophiliu ýtt úr vör með mikilli viðhöfn í tónlistarhúsinu Hörpu í Reykjavík. Verkefnið er eitt flaggskipa formennskuáætlunar Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2014, en mun standa yfir til ársins 2017.

Menntaverkefnið Biophilia er þróað af Björku Guðmundsdóttur í samstarfi við norrænt lista- og vísindafólk í fremstu röð. Meginmarkmið með verkefninu er að örva forvitni barna um náttúruvísindi svo og skapandi hugsun þeirra.

Samkoma kennara

Um miðjan nóvember 2014 komu kennarar frá norrænu ríkjunum fimm, auk Álandseyja, Færeyja og Grænlands, saman til að ýta Biophiliu úr vör (sjá myndband frá vinnustofunni).

Markmiðið er að þróa kennsluaðferðir sem sameina þekkingu, sköpunarkraft og tækni. Nýstárleiki verkefnisins felst í óhefðbundnum kennsluaðferðum með þverfaglegri nálgun, óháð aldri, fagi eða fagsviði.

„Á Norðurlöndum er rík hefð fyrir skapandi og þverfaglegu starfi á öllum skólastigum. Það skipar stóran sess í almennri menntun í löndunum og við vonum að það eflist nú enn fyrir tilstilli Biophiliu,“ segja verkefnastýrurnar Arnfríður Valdimarsdóttir og Auður Rán Þorgeirsdóttir.

Norrænt samstarf

Hvert og eitt landanna, sem taka þátt í verkefninu, hafa skipað stýrihóp og valið eitt sveitarfélag þar sem kennsluaðferðum Biophiliu verður beitt á næstu árum.

Hin norræna vídd verkefnisins á að styðja við samstarf um kennslu í löndunum og á milli þeirra og stuðla að þróun vefvettvangs sem byggja mun á reynslu landanna af kennsluefni Biophiliu. Ætlunin er að bæði reynslan og kennsluefnið muni nýtast í ýmsu samhengi í norrænu skólastarfi í framtíðinni.

Eftirtalin sveitarfélög hafa verið valin til þátttöku í tilraunaverkefninu:

Danmörk: Álaborg; Finnland: Kauniainen/Grankulla; Færeyjar: Þórshöfn; Grænland: Sisimiut; Svíþjóð: Sundsvall; Álandseyjar: Maríuhöfn.

Aðdragandi

Biophilia er þverfaglegt menntaverkefni þar sem sköpunarkraftur er í fyrirrúmi.

Aðferðafræði Biophiliu miðar að því að bregða út af hefðbundnum kennsluháttum. Grundvallarhugmyndin er á þá leið að listiðkun barna beri mestan árangur ef hún hefst með skapandi ferli þar sem tónlist, tækni og vísindi komi saman á nýstárlegan hátt og örvi um leið löngun barnanna til að læra meira um náttúru, umhverfi og loftslag.

Kennarar, vísindamenn, listafólk og aðrir þátttakendur eiga þverfaglegt samstarf um að festa skapandi kennsluaðferðir í sessi og efla umhverfisvitund nemendanna um leið.

Biophilia er þriggja ára verkefni og hefur 2014 verið undirbúningsár. Verkefninu verður hrint í framkvæmd á árinu 2015 í völdum Norðurlöndum. Árið 2016 verður árangur metinn og unnið úr fenginni reynslu.

Verkefnið fór af stað á Íslandi, þar sem tónlistarkonan Björk Guðmundsdóttir hefur þróað aðferðina á grundvelli breiðskífu sinnar Biophiliu (2010) í samstarfi við Háskóla Íslands og Reykjavíkurborg.

Breiðskífan Biophilia er ennfremur fyrsta tónlistar-app í heimi og er hún því orðin hluti af safneign Museum of Modern Art, MoMa, í New York.

Lesið einnig greinina Biophilia sparks children’s interest in nature, science and music í veftímaritinu „Green Growth the Nordic Way“

Nánari upplýsingar um NordBio, sem menntaverkefnið Biophilia fellur undir, eru á www.norden.org/bioeconomy