Bjóða ráðherrum Norðurlanda og Eystrasaltsríkja til ráðstefnu um rafræna þróun

14.03.17 | Fréttir
Invitasjon til konferansen Digital North
Frank Bakke-Jensen, ráðherra norrænnar samvinnu og Evrópumála í Noregi og Jan Tore Sanner, ráðherra málefna sveitarfélaga og nútímavæðingar, vilja auka samstarf Norðurlanda og Eystrasaltsríkja á sviði rafrænnar þróunar. Dagana 24. og 25. apríl 2017 eru ráðherrarnir gestgjafar ráðherraráðstefnu í Ósló undir yfirskriftinni Digital North en Norðmenn gegna formennsku í Norrænu ráðherranefndinni á þessu ári.

„Norðurlönd og Eystrasaltsríkin eru í fararbroddi í Evrópu á sviði rafrænnar þróunar. Nánara samstarf landanna getur aukið verðmætasköpun, fjölgað störfum og stuðlað að bættri þjónustu við íbúana þvert á landamæri grannríkjanna í norðri,“ segir Jan Tore Sanner.

Ráðstefnuna Digital North sækja norrænir og baltneskir ráðherrar sem fara með stefnu í rafrænni þjónustu auk fulltrúa atvinnulífsins á svæðinu. Einnig mæta háttsettir fulltrúar Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) og framkvæmdastjórnar ESB. Rætt verður um umskipti til rafrænnar tækni, rafræna þjónustu hins opinbera, snjöll samfélög, deilihagkerfi og nánara samstarf stjórnmálafólks um rafræna þróun á Norðurlöndum og í Evrópu.

Bætt svæðissamstarf um rafræna þróun getur styrkt samkeppnisfærni landanna og svæðisins í heild.

Bætt svæðissamstarf getur styrkt samkeppnisfærni 

„Bætt svæðissamstarf um rafræna þróun getur styrkt samkeppnisfærni landanna og svæðisins í heild,“ segir Frank Bakke-Jensen.

Ýmsar rannsóknir benda á sóknarfæri í efldu samstarfi Norðurlanda á þessu sviði. Með Eystrasaltslöndunum verður efnahagslegur ávinningur enn meiri og velferðin eykst.

„Norðmenn eru komnir vel á veg á sviði rafrænnar þróunar. Á sama tíma sjáum við að önnur norræn lönd og Eystrasaltsríki eru enn framar á sumum sviðum. Því tel ég mikinn ávinning felast í efldu samstarfi,“ segir Jan Tore Sanner.

Ráðstefnan Digital North

Norðmenn gegna formennsku í Norrænu ráðherranefndinni á árinu 2017. Er þetta í fyrsta sinn sem fjallað er um rafræna þróun á ráðherrastigi.

Að ráðstefnunni Digital North kemur Kommunal- og moderniseringsdepartementet í Noregi í samstarfi við Norrænu ráðherranefndina og Norrænu nýsköpunarmiðstöðina.