Britt Lundberg hefur þétt raðir Norðurlandaþjóða

19.12.17 | Fréttir
Britt Lundberg
Photographer
Magnus Fröderberg/Norden.org
Hreyfanleiki hefur aukist innan Norðurlanda á því ári sem senn er á enda, en það var eitt helsta stefnumál Britt Lundberg þegar hún tók við embætti forseta Norðurlandaráðs árið 2017. Forsetatíð hennar lýkur nú um áramótin.

Meðal þeirra mála sem Norðurlandaráð hefur náð samkomulagi um á árinu 2017 eru samnorræn rafræn auðkenni og að ráðið beiti sér fyrir því að lokun höfundarréttarvarins efnis í stafrænum sjónvarpsútsendingum eftir svæðum verði aflétt.

„Báðar ákvarðanir munu skipta miklu máli fyrir almenning ef stjórnvöld ákveða að hrinda þeim í framkvæmd. Boltinn er nú hjá ríkisstjórnum norrænu ríkjanna sem eiga þess kost að vinna málunum brautargengi. Þetta sýnir að Norðurlandaráð getur haft áhrif þegar við vinnum öll að sama markmiði,“ segir Britt Lundberg.

Báðar ákvarðanir eru nú formlega svonefnd tilmæli sem felast í því að norrænu ríkisstjórnirnar eru hvattar til að bregðast við í samræmi við umræddar ákvarðanir.

Ég tel sjálfsagt að við leggjum okkur fram um að öll Norðurlöndin séu með. Í því felst einnig að Grænlendingum og Færeyingum á að finnast norrænt samstarf eiga erindi til þeirra.

Vestur-Norðurlönd sótt heim

Britt Lundberg hefur í forsetatíð sinni lagt áherslu á tiltekna málaflokka þar sem hæst ber afnám stjórnsýsluhindrana. Þá hefur hún sett málefni norðurslóða og Vestur-Norðurlönd í forgang. Með heimsókn sinni til Grænlands og Færeyja minnti hún á að löndin tvö skipta jafnmiklu máli og önnur lönd í norrænu samstarfi.

„Ég tel sjálfsagt að við leggjum okkur fram um að öll Norðurlöndin séu með. Í því felst einnig að Grænlendingum og Færeyingum á að finnast norrænt samstarf eiga erindi til þeirra.

Fór á alla fundi fólksins í sumar

2017 var annasamt ár í Norðurlandaráði með virkan forseta í brúnni. Britt Lundberg bloggaði á vefsíðu Norðurlandaráðs, Norden.org, fyrst allra forseta ráðsins, og hún var einnig fyrst til að sækja alla fimm fundi fólksins sem haldnir voru á Norðurlöndum í sumar. Hún tók þátt í umræðum um norræn málefni á öllum fundunum fimm.

Britt Lundberg er ánægð með að Norðurlandaráð hafi ákveðið að beita sér fyrir sáttamiðlun sem norrænu vörumerki. Þá fagnar hún niðurstöðum nýrrar viðhorfskönnunar sem sýna að norrænt samstarf nýtur mikils stuðnings meðal almennings.

„Könnunin sýnir að 90% Norðurlandabúa telja norrænt samstarf mikilvægt eða afar mikilvægt. Það veitir okkur öflugt umboð til að vinna áfram að því að dýpka samstarfið,“ segir Britt Lundberg.

Ný alþjóðastefna

Britt Lundberg er einnig ánægð með að Norðurlandaráð sé nú komið með fastan starfsmann í Brussel. Þá nefnir hún nýja stefnu í alþjóðamálum sem ráðið samþykkti á haustþinginu í Helsinki.

„Fyrir vikið er stefna ráðsins í utanríkismálum orðin skýrari. Það er mikilvægt að Norðurlandaráð marki sér stöðu í utanríkis- og öryggismálum. Ég myndi vilja að ráðið léti enn meira að sér kveða í framtíðinni.“ Viðhorfskönnunin leiddi í ljós að norrænn almenningur telur varnarmálsamstarfið mikilvægast.

Þrátt fyrir að forsetatíð Britt Lundberg ljúki um áramótin starfar hún áfram í Norðurlandaráði. Hún er formaður flokkahóps miðjumanna og sem slíkur heldur hún áfram að vinna baráttumálum sínum brautargengi.

„Eitt brýnasta verkefni Norðurlandaráðs er að auðvelda almenningi að starfa, stunda nám og reka fyrirtæki yfir landamærin. Ég setti það mál í forgang í forsetatíð minni og það verður áfram í forgangi hjá mér.“