Efla á hlutverk borgaralegs samfélags í norrænu samstarfi

27.10.15 | Fréttir
Håkan Svenneling
Photographer
Magnus Fröderberg/norden.org
Stjórnmálasamstarf á Norðurlöndum byggir á stuðningi almennings og víðtæk samstaða ríkir um það að efla hlutverk hins borgaralega samfélags. „Að 20 árum liðnum verður borgarafrumkvæðið kannski sjálfsagður hlutur,“ segir Håkan Svenneling, sænskur þingmaður og fulltrúi í borgara- og neytendanefnd Norðurlandaráðs.

„Norðurlönd standa frammi fyrir miklum áskorunum á næstu árum í tengslum við innflytjendamál, baráttu gegn öfgastefnu og umhverfismál. Saman höfum við sterka rödd í alþjóðasamfélaginu. Lausnir okkar fela ávallt í sér gott samstarf við hið borgaralega samfélag. Ef við ætlum að leysa flóttamannavandann og berjast gegn öfgastefnu verður við að standa saman í nærsamfélögum okkar. Þetta snýst um þig, mig og sameiginlega framtíð okkar,“ segir Bengt Morten Wenstøb, norskur þingmaður og talsmaður borgara- og neytendanefndar í málinu.

Þingmennirnir í Norðurlandaráði eru sammála um mikilvægi þess að auka aðkomu borgaranna að samstarfinu. Hinsvegar hafa þeir ólíkar hugmyndir um hvernig megi efla þátt borgaranna. Í meginatriðum snýst umræðan um tvo mismunandi möguleika á þátttöku borgara:

  1. Að auka þátttöku hins borgaralega samfélags með því að auka áhrif borgaranna í heimalöndum sínum.
  2. Að auka þátttöku hins borgaralegs samfélags með því að borgarar geti sjálfir lagt tillögur beint fyrir Norðurlandaráð.

Samband Norrænu félaganna hefur lagt fram tillögu um norrænt borgarafrumkvæði, sem byggir á borgarafrumkvæði ESB, en það gerir borgurum kleift að leggja tillögur beint fyrir framkvæmdastjórn ESB. Einnig hefur sambandið sótt innblástur til Finnlands þar sem allir borgarar með kosningarétt geta lagt fram borgarafrumkvæði, sem miðar ýmist að því að ný lög verði sett, að breytingar verði gerðar á gildandi lögum eða að annars konar breytingu. Hafi tillaga fengið stuðning að minnsta kosti 50 þúsund Finna að sex mánuðum liðnum er hún tekin upp á finnska þinginu.

Borgarafrumkvæði getur aukið þátttöku í samfélagslegri umræðu

Finnland ákvað að nýta borgarafrumkvæðið til að auka áhuga almennings á stjórnmálum, þar sem kjörsókn í Finnlandi er töluvert minni en í hinum Norðurlöndunum.

Maarit Feldt-Ranta , finnsk þingkona og fulltrúi í borgara- og neytendanefnd, segir að mörgu ungu fólki finnist það standa utan við samfélagið, en að möguleikinn á því að leggja fram borgarafrumkvæði hafi haft jákvæð áhrif.

„Ungt fólk í Finnlandi er fremst í heimi á mörgum sviðum, en þrátt fyrir það eru þau á meðal hinna slökustu þegar kemur að þátttöku í samfélagsumræðu. Borgarafrumkvæðið hefur skapað stjórnmálaáhuga hjá yfir hálfri milljón Finna sem hefði kannski ekki kært sig um að taka virkan þátt í lýðræðinu að öðrum kosti. Eitt fyrsta frumkvæðið fjallaði um hjónabönd samkynja einstaklinga. Tillagan kveikti svo líflegar almennar umræður að annað eins hefur sjaldan sést þegar málefni þingsins eru annars vegar.“

Håkan Svenneling, sænskur þingmaður og fulltrúi í borgara- og neytendanefnd Norðurlandaráðs, er einnig jákvæður gagnvart borgarafrumkvæðinu.

„Þetta er áhugaverð tillaga. Finnland varð líka fyrst til þess að innleiða kosningarétt kvenna. Að 20 árum liðnum verður borgarafrumkvæðið kannski sjálfsagður þáttur í lýðræðinu.“