Einn af hverjum 10 Norðurlandabúum lifir í skugga sælunnar

13.06.18 | Fréttir
Menneske på torg
Photographer
Andrew Gook
Ekki eru allir hamingjusamir á Norðurlöndum. Hamingjunni er ójafnt skipt og hlutfall þeirra sem glíma við vanlíðan eða óhamingju fer stækkandi. Ungt fólk og aldraðir eru þeir hópar sem eru hvað minnst hamingjusamir. Það getur dregið úr einingu og stuðlað að óstöðugra samfélagi.

Íbúar Norðurlanda eru þekktir sem hamingjusamasta fólk heims en í nýrri greiningu sem The Happiness Research Institute gerði fyrir Norrænu ráðherranefndina kemur fram að hamingja er síður en svo sjálfgefin öllum. Þvert á móti er hamingjunni ójafnt skipt í öllum Norðurlöndunum. Að meðaltali telja 12,3 prósent Norðurlandabúa í öllum aldurshópum sig ekki vera hamingjusama.

Minnst er hamingjan hjá fólki á aldrinum 18 til 23 ára og fólki eldra en 80 ára. Í fyrri hópnum segjast 14 prósent ekki vera hamingjusöm og í seinni hópnum eru það 16 prósent. Geðræn vandamál eru algengasta ástæða vanlíðunar eða óhamingju og það á enn oftar við um unga karla heldur en ungar konur. Það á við um öll Norðurlöndin að Danmörku undantalinni, en þar eru það í meira mæli ungir karlar sem glíma við vanlíðan af völdum geðrænna vandamála.

- Við áttum von á því að geð- og líkamleg heilsa hefði mikið að segja um líðan fólks en það kom mér á óvart að vægi þess væri svona miklu meira heldur en til dæmis vægi tekna og atvinnu, segir Michael Birkjær, sérfræðingur við The Happiness Research Institute.

Atvinnulausir eru annar hópur sem oft upplifir vanlíðan eða óhamingju. Einn af hverjum þremur atvinnulausum á Norðurlöndum líður illa. Það á við um einn tíunda þeirra sem eru með vinnu. Sérstaklega upplifa karlar vanlíðan þegar þeir eru atvinnulausir.

Afleiðingar fyrir samfélagið


Það að 12,3 prósent Norðurlandabúa séu ekki hamingjusamir hefur verulegar afleiðingar fyrir fólkið sjálft og aðstandendur þess. En vanlíðan fólks skapar einnig efnahagslegar áskoranir fyrir samfélagið til langs tíma. Um er að ræða fjarvistir vegna veikinda, litla framleiðni og mikla notkun á heilbrigðisþjónustu.

Vanlíðan og óhamingja svo stórs hóps á Norðurlöndum er viðfangsefni sem samfélagið þarf að takast á við. Samfélagseining byggist ekki eingöngu á velferðarkerfi og tekjudreifingu heldur fer hún einnig að miklu leyti eftir því hvernig hamingjunni er skipt.

- Tengsl og líkindi milli Norðurlandanna benda til þess að einhverjir þættir í samfélagsgerðinni dragi úr vellíðan okkar. Þetta vekur upp ákveðnar spurningar. Hvað getum við sem heild gert fyrir einstaklinga sem búa við skert lífsgæði af ýmsum ólíkum ástæðum? Hvert ætti hlutverk hins opinbera að vera? Hvert ætti hlutverk borgaralegs samfélags að vera? Og hvernig má nýta fjármuni samfélagsins á sem bestan hátt? Við ættum að reyna að svara þessum spurningum. Við sættum okkur ekki við að svona margir einstaklingar séu í skugga sælunnar, segir Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.

  •  Þú getur sótt skýrsluna hér.
Contact information