Endurnýjun norræns samstarfs

26.06.14 | Fréttir
Samstarfsráðherrar Norðurlanda komust að samkomulagi um endurbætur á samstarfi landanna 26. júní. Ákvörðunin kemur í framhaldi af yfirlýsingunni um framtíðarstefnu frá febrúar sl.

― Markmiðið með nútímavæðingarskýrslunni er að tryggja framtíð norræns samstarfs. Við þurfum á virku samstarfi að halda sem stýrt er með pólitískum ákvörðunum og sem grundvallast á skilvirku ákvörðunarferli og góðum stjórnsýsluháttum. Við þurfum meiri pólitík á norrænum vettvangi á komandi árum, segir Eygló Harðardóttir samstarfsráðherra sem er fulltrúi formennsku Íslendinga í Norrænu ráðherranefndinni á þessu ári.

Norrænt samstarf þarf að vera í stöðugri endurnýjun til þess að það geti áfram verið öflugt og gagnlegt tæki til að takast á við ný pólitísk úrlausnarefni. Í skýrslunni „Nytt Norden“ (Ný Norðurlönd) kynnir Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, 39 skýrar tillögur um slíka endurnýjun norræns samstarfs. Á grundvelli tillagnanna í skýrslunni hafa samstarfsráðherrarnir í dag samþykkt endurbótapakka fyrir norrænt samstarf.

Samstarf Norðurlanda á að vera gagnlegt fyrir almenning

― Norræna ráðherranefndin og samstarfið verða að skila góðum árangri sem varðar þau úrlausnarefni sem ríkisstjórnir Norðurlanda eru að fást við hverju sinni, segir Eygló Harðardóttir.

Endurbæturnar snúast í meginatriðum um betra ákvörðunarferli, aukið samstarf í alþjóðamálum og aukna gagnsemi samstarfsins.  Markmiðið er að skapa sameiginlegan norrænan ávinning að og áþreifanlegan árangur. Í samstarfinu á að leggja áherslu á þau úrlausnarefni sem hafa beina þýðingu fyrir almenning á Norðurlöndum.

― Vegabréfasambandið, sameiginlegur vinnumarkaður og félagsmálasáttmálinn eru árangur af norrænu samstarfi. Á þessu ári lýkur verkefninu um skipti á upplýsingum um skattamál. Það samstarf hefur skilað skattgreiðslum upp á marga milljarða króna í ríkissjóði Norðurlanda sem annars hefðu horfið í skattaskjól. Endurbæturnar á samstarfi Norðurlanda eru einn liður í því að gera metnaðarfulla framtíðarsýn okkar um landamæralaus, nýskapandi, opin og sýnileg Norðurlönd að veruleika, segir Eygló Harðardóttir.

Nánari upplýsingar um yfirlýsingu samstarfsráðherranna um framtíðarsýn: Saman erum við öflugri.