Evrópa á umbrotatímum þarf á öflugum Norðurlöndum að halda

01.11.16 | Fréttir
Erna Solberg
Photographer
Johannes Jansson/norden.org
„Þörfin fyrir umskipti í efnahagsmálum, áskoranir tengdar Evrópu og þróun í alþjóðamálum minnir okkur Norðurlandabúa á mikilvægi sameiginlegra gilda okkar, samheldni og samstöðu. Markvisst norrænt samstarf er nauðsynlegt,“ sagði Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, sem í dag kynnti formennskuáætlun Noregs í Norrænu ráðherranefndinni 2017 á þingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn.

Áætlunin, sem leggur grunninn að samstarfi norrænu ríkisstjórnanna á árinu 2017, hefur þrjú megináherslusvið:

  1. Straumhvörf á Norðurlöndum
    Við munum auka samkeppnishæfni Norðurlanda á tímum umskipta til græns samfélags þar sem stefnt er að því að halda losun í lágmarki, og efla aðlögun og samstarf í heilbrigðismálum.
  2. Norðurlönd í Evrópu 
    Við munum efla samstarf okkar um Evrópumál. Öflug rödd Norðurlanda í Evrópuumræðunni er ekki aðeins norrænum þjóðum í hag heldur álfunni í heild sinni.
  3. Norðurlönd í umheiminum 
    Við munum auka stefnumarkandi samstarf Norðurlanda á sviði utanríkismála. 

Þá eru samlegðaráhrif af norrænu samstarfi og samstarfi Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna Noregi einnig hugleikin.

Norðurlönd þurfa á öflugri Evrópu að halda, og Evrópa á umbrotatímum þarf á öflugum og afdráttarlausum Norðurlöndum að halda


Elisabeth Vik Aspaker, norrænn samstarfsráðherra og ráðherra EES- og ESB-mála í Noregi, var einnig viðstödd þegar formennskuáætlun Noregs var kynnt. Sem norrænn samstarfsráðherra mun hún hafa yfirumsjón með starfsemi tengdri formennsku Norðmanna.

„Ég hlakka til þess að takast á við formennskuna á árinu 2017. Norðurlönd þurfa á öflugri Evrópu að halda, og Evrópa á umbrotatímum þarf á öflugum og afdráttarlausum Norðurlöndum að halda,“ segir Vik Aspaker.  

Meira um formennsku í Norrænu ráðherranefndinni

Norræna ráðherranefndin er opinber samstarfsvettvangur norrænu ríkisstjórnanna. Norrænu ríkin fimm skiptast á formennsku í Norrænu ráðherranefndinni, eitt ár í senn. Það land sem gegnir formennsku hverju sinni semur áætlun sem verður leiðbeinandi fyrir norrænt samstarf á formennskuárinu.

Finnland hefur gegnt formennsku 2016 og Noregur tekur við þann 1. janúar 2017. Óformlegt samstarf fer einnig fram utan ramma Norrænu ráðherranefndarinnar, meðal annars um utanríkis- og öryggismál, og hefur formennskulandið einnig umsjón með því.