Færeyskur þari og norsk ensím á Bioeconomy Summit

16.04.18 | Fréttir
Hav
Photographer
Johannes Jansson/norden.org
Umfangsmikil þararækt í sjónum undan Færeyjum hefur vakið mikla alþjóðlega athygli. Þarinn er seldur til matvæla- og fóðurframleiðslu en ræktun þarans bætir vistfræðilegt ástand hafsins. Þetta er eitt dæmi um lífgrundaðan iðnað á Norðurlöndum sem kynntur verður fyrir erlendum aðilum á Global Bioeconomy Summit í Berlín dagana 19. og 20. apríl.

Á stórfundinn í Berlín mæta fremstu vísindamenn og aðrir aðilar á sviði lífhagkerfisins þar sem rætt verður um nýjustu tækni og helstu viðfangsefni á þessu sviði.

Norræna ráðherranefndin og ríkisstjórn Argentínu standa að málstofu um „bláa lífhagkerfið“ þar sem fjallað verður um nýtingu lífmassans í hafinu í þágu sjálfbærra samfélagbreytinga.

Ræktaður þari hreinsar

Undir yfirskriftinni „Blue Growth: Seizing new opportunities for sustainable future“ munu Olavur Gregersen frá Færeyjum og aðrir segja frá því hvernig stórtæk ræktun á þörungum hefur jákvæð áhrif á lífríki hafsins

Þörungar geta unnið á koltvísýringi og ofauðgun vegna nítrata sem berast úr ræktun á landi.

Fyrirtæki Olavs Gregersen, Ocean Rainforest, ræktar þara í stórum stíl í hafinu umhverfis Færeyjar. Þarinn er seldur til matvæla- og fóðurframleiðslu en hann má einnig nota til gerðar á jarðefnalausum umbúðum.

Magnið skiptir sköpum

„Það sem vekur athygli alþjóðlega er að ræktunin á sér stað í sjónunum í nokkurri fjarlægð frá landi og þess vegna er hægt að hafa hana stórtæka. Þróunarstarfið hefur farið fram í náinni samvinnu við rannsóknarstofnanir þvert á fagsvið og landamæri og er gott dæmi um nýskapandi norrænt samstarf,“ segir Olavur Gregersen.

Margareth Øverland, vísindamaður við norska umhverfis- og lífvísindaháskólann, tekur einnig þátt í Global Bioeconomy Summit.

Hún rannsakar hvernig nýta má endurnýjanlegar auðlindir á við þara og tré til að þróa ný fóðurefni fyrir búpening og eldisfisk:

„Matvælaöryggi framtíðarinnar verður háð því að fóðurframleiðsla veðri sjálfbær. Í fyrirlestrinum ætla ég að tala um hvernig hægt að er búa til verðmæt prótín úr timbri og þara með þróaðri líftækni sem byggist á örverum og ensímum.“

Norðurlönd á heimsmælikvarða

Margareth Øverland segir Norðurlönd vera á heimsmælikvarða hvað varðar efnahags- og tækniþróun á sviði sjávareldis. Þetta veitir löndunum góða möguleika til þess að gera lífmassann að mikilvægum þætti í grænu umskiptunum.

„Auk þess eru Norðurlönd skógi vaxin og strandlengjurnar langar þar sem hægt er að rækta þara sem endurnýjanlegan lífmassa,“segir hún.

Þriðji fyrirlesarinn frá Norðurlöndum er Hörður G. Kristinsson, vísindamaður hjá Matís og formaður norræna lífhagkerfisráðsins.

Hann mun fjalla um það hvernig fiskiðnaður á Íslandi er orðinn skilvirk og hátæknileg atvinnugrein þar sem áhersla er lögð á að hámarka nýtni á auðlindum hafsins.

Norræn áætlun væntanleg

Mörg lönd hafa sett samstarf um þróun norræns lífhagkerfis á oddinn þegar þau hafa gegnt formennsku í Norrænu ráðherranefndinni. Norræna lífhagkerfisráðið hefur samið tillögu að samnorrænni áætlun um lífhagkerfið og veðrur hún kynnt á sumarmánuðum.