Fimm verðlaun Norðurlandaráðs veitt fyrir „úrval Norðurlanda“

29.10.14 | Fréttir
Vinnare av Nordiska rådets priser 2014
Photographer
Magnus Froderberg/norden.org
Finnskar bókmenntir, íslenskar kvikmyndir og umhverfisstarf, norskar barnabókmenntir og dönsk tónlist hlutu viðurkenningu þegar fimm verðlaun Norðurlandaráðs voru afhent við hátíðlega athöfn í ráðhúsinu í Stokkhólmi.

Finnski rithöfundurinn Kjell Westö hlaut Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir skáldsöguna „Hägring 38“ vegna þess að „hún skapar sterka tilfinningu fyrir andrúmslofti á örlagaríkum stundum í sögu Finnlands sem jafnframt teygja anga sína til nútímans“.

Benedikt Erlingsson, leikstjóri og handritshöfundur, og Friðrik Þór Friðriksson framleiðandi hlutu Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráð fyrir myndina „Hross í oss“ vegna þess að hún er „sérlega frumleg mynd með rætur í kjarnyrtum húmor Íslendingasagnanna“.

Håkon Øvreås og Øyvind Torseter (myndskreytir) tóku á móti Barna- og unglingabókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs fyrir bókina „Brune“ vegna þess að hún fyllir upp „í tómarúm sem er á milli bóka fyrir yngstu börnin og unglingabóka. Þetta er góð frásögn á sígildan mælikvarða, en um leið hjálpar hún til við að endurnýja norska og norræna frásagnarhefð fyrir börn“.

Danska tónskáldið Simon Steen-Andersen hlaut Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs fyrir „Black Box Music“ vegna þess að það er „einstakt og ákaflega frumlegt verk. Simon Steen-Andersen leikur sér af snilld á mörkum tónsköpunar, innsetningar, raftækni og gjörninga“.

Reykjavíkurborg hlaut Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2014 sökum „þess víðtæka umhverfisstarfs sem innt er af hendi með langtímasjónarmið að leiðarljósi, markvissrar vinnu með umhverfisvæna nýtingu neysluvatns og framleiðslu fjarvarma og rafmagns með hjálp jarðhita“.

Verðlaunin nema 350 þúsundum danskra króna. Þau voru afhent af verðlaunahöfum síðasta árs við hátíðlega verðlaunaathöfn í ráðhúsinu í Stokkhólmi. 

Verðlaunahafendingin í sjónvarpi

Sænska ríkissjónvarpið, SVT, tók upp alla athöfnina og Jessika Gedin og Kristofer Lundström, umsjónarmenn þáttanna Babel og Kobra, taka viðtöl við verðlaunahafana fimm í þættinum „Úrval Norðurlanda“ (Nordens bästa) sem sendur verður út á rásinni SVT2 föstudaginn 31. október kl. 20 að sænskum tíma og aftur laugardaginn 1. nóvember kl. 18.

Þátturinn verður jafnframt sýndur í ríkissjónvarpinu í öllum hinum norrænu löndunum:

Finnland: YLES sýnir þáttinn 31. október kl. 23:00 (að finnskum tíma) og mánudaginn 3. nóvember kl. 16:25 (með finnskum texta).

Noregur: NKR2 sýnir þáttinn 1. nóvember kl. 20:00 að norskum tíma.

Danmörk: DRK sýnir þáttinn 2. nóvember kl. 20 að dönskum tíma.

Ísland: RÚV sýnir þáttinn 5. nóvember kl. 22:20 að íslenskum tíma.

Nánari upplýsingar um verðlaun Norðurlandaráðs.