Fjölbreytni eykur arðsemi

28.02.17 | Fréttir
Petter Stordalen, Nordic Choice
„Fleiri forystukarlar atvinnulífsins ættu að huga betur að fjölbreytni og jafnrétti. Ekki til að vera góðhjartaðir heldur vegna þess að arðsemin eykst fyrir vikið,“ sagði viðskiptajöfurinn Petter Stordalen á fjölmennri norrænni ráðstefnu um vinnumarkað framtíðarins sem haldin var í Ósló á dögunum.

Jafnrétti á vinnumarkaði er eitt af áherslumálum Norðmanna en þeir gegna formennsku í Norrænu ráðherranefndinni á árinu 2017.

Í byrjun febrúar var tveimur dögum varið í að ræða viðfangsefni vegna kynjaskiptingar á vinnumarkaði, mikilvægi þess að báðir foreldrar taki fæðingarorlof og hvernig sporna megi gegn kynjuðu námsvali og mismunun gagnvart innfluttum íbúum.

Það gerist fjandakornið ekki neitt

Ráðstefnuna sóttu fulltrúar atvinnulífsins, fræðaheimsins og stéttarhreyfingarinnar auk stjórnmálafólks, rannsakenda og fulltrúa félagasamtaka.

Pallborðsumræður fóru fram undir yfirskriftinni „Hvernig huga fyrirtæki að fjölbreytni við mannaráðningar?“. Petter Stordalen, eigandi og stjórnarformaður Nordic Choice Hotel, gagnrýndi hve hægt gengur að ná jafnrétti á vinnumarkaði.
„Það gerist fjandakornið ekki neitt. Háskólarnir eru sneisafullir af færum konum en hvert fara þær? Ég er hræddur um að karlar í forystustöðum hafi lítinn áhuga á fjölbreytni og jafnrétti. En þeim væri nær að gera það því margar rannsóknir sýna að fyrirtæki sem leggja áherslu á fjölbreytni verða arðsamari fyrir vikið. Margir halda að Nordic Choice leggi áherslu á fjölbreytni vegna þess að við séum svo góð í okkur en svo er ekki. Við gerum það vegna þess að fyrirtækið hagnast á því.“

Konur oftar í hlutastörfum

Gerd Kristiansen, formaður norska alþýðusambandsins (LO), sat einnig í pallborði. Hún benti á að kerfisbundin kynjaskipting starfa væri ljón á veginum til jafnréttis á vinnumarkaði.
„Konur eru miklu oftar í hlutastörfum en karlar og eru tekjuminni en þeir. Konur fá lélegri lífeyri en karlar og konur axla meiri ábyrgð þegar veikindi koma upp í fjölskyldunni. Við verðum að taka á þessari skekkju ef við ætlum að skapa jafnrétti á vinnumarkaði.“

Dr. Lynn Roseberry, rithöfundur og fyrrum lektor við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn, benti á mikilvægi þess að fæðingarorlofið skiptist jafnar á foreldrana. 

Feður á Norðurlöndum taka almennt meira fæðingarorlof en karlar í öðrum löndum heims. Á sama tíma ber töluvert á milli landanna og þrátt fyrir aukið jafnrétti á ýmsum sviðum eru það mæðurnar sem verja mestum tíma í að gæta barnanna.

Gerd Kristiansen segir Norðurlöndin hafa náð lengra en önnur Evrópulönd varðandi jafnrétti á vinnumarkaði. Engu að síður sé langt í land þar til jafnrétti hefur náðst að fullu.
„Því er þörf á virkri stefnu í jafnréttismálum sem tryggir gott jafnvægi milli vinnu, heimilis og frístunda, hjá jafnt konum og körlum.“

Hvað þarf til að jafnrétti náist á vinnumarkaði?

„Við þurfum fyrst og fremst að vera sammála um að jafnrétti á vinnumarkaði sé markmið. Eigi það markmið að nást verðum við að skapa jafnrétti á heimilum með jafnari skiptingu vinnu og ábyrgðar á umönnun. Við þurfum fjölskyldustefnu sem styrkir jafnrétti á heimilum,“ svarar Gerd Kristiansen og bætir við:
„Auk þess verða fyrirtæki að vinna kerfisbundið út frá jafnréttissjónarmiðum þegar ráðið er í störf og skapaðir möguleikar á starfsframa. Og vera víðsýnni þegar færni umsækjenda er metin.“

Hanne Bjurstøm, umboðsmaður jafnréttis- og mismununarmála í Noregi, telur einnig að ráðningarferlið sé mikilvægur grundvöllur fyrir jafnrétti á vinnumarkaði.

Hvernig er mannaráðningum beitt til að ná fram jafnrétti?

„Gott ráðningarferli auðveldar atvinnurekanda að velja hæfasta umsækjandann óháð kyni, hugsanlegri fötlun eða uppruna. Sá hæfasti fær starfið og minni líkur eru á mismunun gagnvart einstaklingum sem standa höllum fæti. Atvinnurekandinn verður að tryggja faglegt og hlutlaust ráðningarferli,“ svarar Hanne Bjurstøm.

Hvaða viðfangsefni blasa við þér sem umboðsmanni jafnréttis- og mismununarmála?

„Rannsóknir í Noregi sýna að þegar umsækjendur bera erlend nöfn eru 25% minni líkur á því að þeir verði boðaðir í viðtöl. Við vitum að jafnræði er ekki alltaf haft að leiðarljósi í ráðningarferli. Þegar ráðningaraðili lætur tilfinninguna eina ráða þegar valið er úr umsóknum er hætt við að viðeigandi færni umsækjenda hverfi í skuggann fyrir eiginleikum sem eiga ekki að skipta máli. Gott ráðningarferli byggir á jafnrétti. 

Áhersla á vinnu 

Á ráðstefnunni var einnig rætt hve mikilvægt er að huga að þverlægu sjónarhorni á vinnumarkaði. Paulina de los Reyes, prófessor í hagsögu við Stokkhólmsháskóla, sagði frá rannsóknum sínum í erindi með yfirskriftinni „Hvar eru konur af erlendum uppruna á vinnumarkaði?“
Hún benti á að „konur af erlendum uppruna“ eru sundurleitur hópur og hvatti fólk til að rýna í önnur gögn en tölur um atvinnuþátttöku þegar fjallað er um málefni vinnumarkaðarins.
„Í Svíþjóð er lögð gífurleg áhersla á að aðfluttir einstaklingar fái vinnu, því það sé „lykillinn að aðlögun“.“

Paulina de los Reyes telur hins vegar að þá gleymist það sem er að gerast á vinnumarkaði í dag og að við komum ekki auga á óformlega stigskiptingu sem skapar ójöfnuð. Sem dæmi nefndi hún vinnuvernd, samræmingu vinnu og fjölskyldulífs og launamun en einnig kynþáttafordóma, mismunun og áreitni.
„Ef einblínt er á hve margir komast í vinnu vilja þessir mikilvægu þættir gleymast. Það vill gleymast að aðstæður á sænskum vinnumarkaði eru margslungnar. Sumar konur sakna þess að geta rætt við félaga sína í vinnunni og á sumum vinnustöðum þykir starfsfólki reglur um vinnuvernd vera fjarlægt hugtak.“

Paulina de los Reyes bendir á að einstaklingar geta starfað á sama vinnustað en á ólíkum launa- og ráðningarkjörum. Þverlægt sjónarhorn auðveldi okkur að koma auga á hvernig stéttamunur, aldur, uppruni og kyn skapa goggunarröð sem leiðir af sér ójöfnuð.

„Rannsóknir sýna að tilvísun til kynþáttar, stéttar og kyns leiðir oft af sér að einstaklingar þurfa að sætta sig við lakari kjör, verða oftar fyrir aðkasti og telja sig heppna með réttindi sem öðrum þykir sjálfsögð. Þverlægt sjónarhorn auðveldar okkur að sjá hvernig slíkar hugmyndir setja svip sinn á valdapíramída á vinnustöðum og hafa áhrif á hvernig starfsfólk vex og dafnar í starfi. Til að ná jafnrétti og jöfnuði á vinnumarkaði verðum við að breyta skipulaginu og óformlegri stigskiptingu sem kemur í veg fyrir að komið sé fram við alla einstaklinga á jafnan hátt,“ sagði Paulina de los Reyes að lokum.