Fleiri konum en körlum neitað um hæli

03.10.16 | Fréttir
De nordiske ligestillingsmininstre
Photographer
Anna Rosenberg
Umsóknum kvenna um hæli á Norðurlöndum er oftar hafnað en umsóknum karla. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem unnin var að beiðni jafnréttisráðherranna. Ráðherrarnir vilja vita hvað veldur þessu, og tryggja að þær forsendur sem liggja til grundvallar hælisumsóknum kvenna og karla verði metnar á einstaklings- og jafnræðisgrundvelli.

Á síðasta ári tóku Norðurlöndin á móti fleiri hælisumsóknum en nokkru sinni fyrr, og voru karlmenn og drengir í meirihluta umsækjenda.

70–80 prósent allra hælisleitenda á Norðurlöndum 2015 voru karlkyns.

Þar af leiðir að karlar voru í meirihluta þeirra sem fengu dvalarleyfi, en jafnvel þó að reiknað sé með kynjahlutföllum umsækjenda fengu hlutfallslega fleiri karlar dvalarleyfi en konur. Þetta kemur fram í yfirliti sem Norræna ráðherranefndin um jafnréttismál fól Outi Lepola, stjórnmálafræðingi við háskólann í Tampere, að vinna.

Sama mynstur

Í Finnlandi fengu 55% kvennanna og 60% karlanna dvalarleyfi. Í Danmörku fengu 79% kvennanna og 87% karlanna dvalarleyfi. Mynstrið er hið sama í öllum norrænu löndunum, en í Svíþjóð er minnstur munur á milli kynja. Þar fengu 77% kvennanna og 79% karlanna dvalarleyfi.  

„Ég er undrandi á þessum niðurstöðum, þar sem öll Norðurlöndin hafa unnið að því að jafnréttis sé gætt við veitingar dvalarleyfa,“ segir Juha Rehula, jafnréttisráðherra Finnlands, á fundi ráðherranna fyrir utan Helsinki þann 3. október.

Könnum orsakirnar!

Jafnréttisráðherrarnir telja brýnt að kanna orsakir þess að fleiri konum sé neitað um hæli.

 „Í þessu yfirliti eru kastað fram áleitnum spurningum sem okkur ber að svara,“ segir Åsa Regnér, jafnréttisráðherra Svíþjóðar.

Hún segir frá því að sænska útlendingaeftirlitið (Migrationsverket) hafi látið vinna greiningu þar sem fram hafi komið að stofnunin hafi stuðst við karlkyns staðalímynd af „aðalpersónunni“ í fjölskyldu, og litið þar af leiðandi á karlmenn sem „aðalumsækjendur“. Þetta hafi orðið til þess að útlendingaeftirlitið setji nú jafnréttismál í forgang.

„Auðvitað eiga allir hælisleitendur rétt á einstaklingsbundnu mati,“ segir Åsa Regnér.

Samkvæmt skýrslunni eru góð dæmi til staðar í öllum norrænu löndunum um það hvernig hægt er að vernda konur í viðkvæmri stöðu í umsóknarferlinu og auka þekkingu á kynbundinni áreitni, svo sem hættu á nauðungarhjónabandi eða heiðursofbeldi.

Þurfi ekki að segja frá í návist barnanna

Í skýrslunni er þó einnig bent á annmarka, svo sem það að ekkert landanna hafi það að reglu að kvenkyns starfsfólk sjái um að taka viðtöl við kvenkyns hælisleitendur um ástæðurnar fyrir hælisumsókn þeirra – sem Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) hefur mælt með að sé gert.

Ekki er það heldur regla í öllum löndunum að konum sem sækja um hæli sé tjáð að þær eigi rétt á viðtali án þess að menn þeirra og börn séu viðstödd, en þetta hefur UNHCR einnig sett að skilyrði.

 „Í Noregi þykir sjálfsagt að konur fái að tala máli sínu án þess að börnin séu viðstödd. Það er bæði gert til þess að vernda börnin og gera konunni kleift að segja frá öllu sem hún þarf,“ segir Kai-Morten Terning ráðuneytisstjóri, sem var staðgengill jafnréttisráðherra Noregs á fundinum.

Samstarf um aðlögun

Aðlögun nýrra innflytjenda hefur mikinn forgang innan norræns samstarfs eins og er.

Jafnréttisráðherrarnir lögðu áherslu á mikilvægi markvissrar stefnu til þess að konur og karlar hefðu möguleika á að koma sér fyrir á Norðurlöndum á jöfnum forsendum.

Löndin deila þeirri reynslu að mikill munur er á kynjunum hvað snertir þátttöku nýrra innflytjenda í námi og vinnu.

Jafnréttisráðherra Danmerkur, Ellen Trane Nørby, benti á mikilvægi þess að fræða alla nýja innflytjendur um réttindi kvenna.

„Þeir eiga að vita það frá upphafi að jafnrétti er grundvallargildi sem kveður á um að körlum og konum sé sýnd sama virðing. Einnig þarf að fræða fólk um grundvallarréttindi þess, svo sem að það megi sækja um skilnað, að ofbeldi gegn konum verði ekki liðið, og að konur eru velkomnar á vinnumarkaðinn til jafns við karla,“ sagði hún.

Á fundi sínum ákváðu ráðherrarnir einnig að halda áfram ýmsum aðgerðum sem miða að því að auka aðkomu karla að jafnréttismálum. Síðdegis tóku jafnréttisráðherrar Eystrasaltsríkjanna til máls í umræðu um kynjamismunun og hatursorðræðu.