Document Actions

Forsætisráðherrar Norðurlanda kynna hnattrænt verkefni

Ríkisstjórnir landanna fimm hyggjast leggjast á eitt um að framfylgja áætlun Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun til ársins 2030. Ákveðið hefur verið að verja 74 milljónum danskra króna í sameiginlegt framtaksverkefni um alþjóðlega miðlun norrænnar þekkingar á grænum umskiptum, jafnrétti og sjálfbærum lausnum á sviðum matvæla og velferðar.

30.05.2017

Stefan Löfven (Svíþjóð), Lars Løkke Rasmussen (Danmörk), Erna Solberg (Noregur), Juha Sipilä (Finnland) og Bjarni Benediktsson (Ísland)

Ljósmyndari
Silje Katrine Robinson/norden.org

„Framtaksverkefnið Norrænar lausnir á hnattrænum viðfangsefnum verður öflugt tæki í samstarfi okkar um að framfylgja heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun fram til ársins 2030,“ segir Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs og formaður Norrænu ráðherranefndarinnar á árinu 2017.

Forsætisráðherrarnir tóku ákvörðun um framtaksverkefnið árið 2015 í kjölfar tímamótasamninganna sem voru gerðir á loftslagsráðstefnunni í París og að Sameinuðu þjóðirnar settu heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun. Forsætisráðherrarnir funda í nágrenni Björgvinjar 29. og 30. maí 2017 en þá munu „Norrænar lausnir á hnattrænum viðfangsefnum“ vera tilbúnar til alþjóðlegrar kynningar.

Ein grunnhugmyndin er að nota Norðurlönd sem dæmi um að sjálfbær þróun stangist ekki á við efnahagsvöxt. Pólitískir sérfræðingar, fræðimenn, aðilar í einkageiranum en einnig norræn sendiráð, útflutningsráð og alþjóðlegir hagsmunaaðilar munu koma að verkefnunum sem ætlað er að koma til móts við eftirspurn eftir norrænum sjálfbærnistefnum og vörum. Samráð er þegar hafið alþjóðlegar stofnanir, svo sem Sameinuðu þjóðirnar, Alþjóðavinnumálastofnunina, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina og World Economic Forum.

Framtaksverkefnið Norrænar lausnir á hnattrænum viðfangsefnum verður öflugt tæki í samstarfi okkar um að framfylgja heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun fram til ársins 2030

Sex flaggskipsverkefni

Framtaksverkefnið stendur yfir í þrjú ár og felst í sex flaggskipsverkefnum. Verkefnin fjalla um sjálfbærar borgir, svæðisbundið orkusamstarf, fjárfestingar í jafnrétti, sjálfbæra matvælaframleiðslu, snjallar velferðar- og loftslagslausnir og öll miðast þau við einhver hinna 17 heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun til ársins 2030.

Flaggskipsverkefnið Norrænar orkulausnir byggir á norrænu orkumálasamstarfi og bakgrunnurinn er 7. heimsmarkmiðið, „Sjálfbær orka fyrir alla“.  

„Norðurlönd eru brautryðjendur á sviði uppbyggingar á endurnýjanlegu og samþættu orkukerfi, og margar lausnir okkar er hægt að nýta annars staðar. Verkefni okkar beinist að Austur-Afríku þar sem fjölbreytt framboð er á endurnýjanlegri orku,“ segir Svend Søyland verkefnisstjóri.

Aðlaðandi borgir

Flaggskipsverkefnið Sjálfbærar borgir á Norðurlöndum er svar við 11. heimsmarkmiðinu, „Sjálfbærar borgir fyrir alla“. Norðurlönd eru fær um að afhenda heilu kerfin, til dæmis fyrir vistvæna meðhöndlun á vatni og úrgangi, en framar öllu til að auka lífsgæði íbúanna.

„Það sem aðrar þjóðir eru að sækjast eftir á Norðurlöndum er hvernig okkur tekst að byggja aðlaðandi borgir með öruggu gangvirki og þar sem íbúar lifa við velsæld,“ segir verkefnisstjórinn, Hans Fridberg.

Jafnrétti eykur framleiðni

Flaggskipsverkefnið Norræn kynjaáhrif á vinnumarkaði er bæði svar við 5. heimsmarkmiðinu, „Jafnrétti“ og 8. markmiðinu, „Mannsæmandi atvinnutækifæri og hagvöxtur“.

„Mikil eftirspurn er eftir norrænni reynslu af fjárfestingum í jafnrétti. Norðurlönd eru sönnun þess að jafnrétti karla og kvenna á vinnumarkaði skapar velsæld, framleiðni og þróun,“ segir Julia Fäldt-Wahengo, en hún átti hugmyndina að verkefninu.


Nánari upplýsingar um flaggskipsverkefnin veita verkefnisstjórarnir:

Tengiliðir