Forsætisráðherrarnir: Norðurlönd samþættasta svæði veraldar

28.09.16 | Fréttir
De nordiske statsministre på Åland, september 2016
Photographer
Laura Kotila/Statsrådets kansli i Finland
Norrænu forsætisráðherrarnir vilja efla samstarf sitt, á norrænum vettvangi sem og alþjóðlega. Forsætisráðherrarnir hittu Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar, og Henrik Dam Kristensen, forseta Norðurlandaráðs, á óformlegum fundi á Álandseyjum á miðvikudag.

„Ég er mjög ánægður með að forsætisráðherrarnir hafi sagst vilja efla Norðurlönd sem samþættasta svæði veraldar, og með áframhaldandi stuðning þeirra við þær umbætur sem við gerum nú á norrænu samstarfi,“ sagði Dagfinn Høybråten að loknum fundinum með norrænu forsætisráðherrunum. Hann bætti því við að forsætisráðherrarnir væru ánægðir með aukinn sveigjanleika og vægi samstarfsins, til dæmis í tengslum við nýtilkomið samstarf um aðlögunarmál.

Á fundinum greindi Høybråten frá þeirri ákvörðun norrænu samstarfsráðherranna að ýta úr vör umbótaáætluninni Ný Norðurlönd 2.0, sem hefur það að markmiði að auka vægi Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir ríkisstjórnir Norðurlanda, atvinnulíf og borgaralegt samfélag í löndunum.

Einnig var forsætisráðherrunum greint frá nýrri norrænni samstarfsáætlun um flóttafólk og innflytjendur, sem lögð verður fyrir Norðurlandaráð á komandi þingi. Samstarfsáætluninni er ætlað að efla norrænt samstarf um aðlögun flóttafólks og innflytjenda með því að miðla reynslu og skapa þekkingu og styðja með þeim hætti við starf að þessum málaflokki í löndunum.

Ég er mjög ánægður með að forsætisráðherrarnir hafi sagst vilja efla Norðurlönd sem samþættasta svæði veraldar, og með áframhaldandi stuðning þeirra við þær umbætur sem við gerum nú á norrænu samstarfi.

Framkvæmdastjórinn upplýsti forsætisráðherrana einnig um stöðuna á verkefninu „Norrænar lausnir á hnattrænum viðfangsefnum“, sem þeir ýttu úr vör í Reykjavík í október 2015. Þrjú áherslusvið hafa verið valin: Nordic Green, Nordic Food and Welfare og The Nordic Gender Effect, með alls 5 flaggskipsverkefnum sem öll byggja á styrkleikum Norðurlanda. Flaggskipsverkefnin eru: Nordic Sustainable Cities, Nordic Climate and Energy Solutions, Nordic Food and Nutrition, Nordic Welfare Solutions og The Nordic Deal – Gender, Business and Work.

Forseti Norðurlandaráðs, Henrik Dam Kristensen, sat einnig fundinn með forsætisráðherrunum.

 „Við ræddum þema leiðtogafundarins, sem er innleiðing heimsmarkmiða SÞ. Forsætisráðherrarnir hlakka til að halda þeirri umræðu áfram í Kaupmannahöfn,“ sagði Henrik Dam Kristensen.

Norrænu forsætisráðherrarnir hittast næst í tengslum við 68. þing Norðurlandaráðs, sem fram fer í Kaupmannahöfn 1.–3. nóvember.