Forseti Norðurlandaráðs: Sterkur norrænn andi á Grænlandi og í Færeyjum

19.05.17 | Fréttir
Britt Lundberg på Grönland och Färöarna
Photographer
Nils Baum, , Bureau for Inatsisartut
Mikill áhugi er á norrænu samstarfi á Grænlandi og í Færeyjum. Þetta segir Britt Lundberg, forseti Norðurlandaráðs, eftir að hafa heimsótt löndin tvö.

Britt Lundberg er sjálf frá Álandseyjum þar sem er sjálfsstjórn rétt eins og á Grænlandi og í Færeyjum. Hún vill nýta tækifærið til að beina athyglinni að viðhorfum þessara þjóða gagnvart norrænu samstarfi á meðan hún gegnir embætti forseta Norðurlandaráðs á árinu 2017. Auk þess telur hún mikilvægt að dýpka norrænt samstarf enn frekar á órólegum tímum í heimi þar sem verndarstefna sækir á.

„Það má vera að fólk haldi að norrænt samstarf haldi áfram af sjálfu sér þrátt fyrir ókyrrð í lofti um allan heim, en ég tel að við verðum alltaf að leggja okkur fram við að hlúa að lifandi samskiptum okkar á milli. Þetta er ein ástæða þess að mig langaði til að hitta fulltrúa Færeyja og Grænlands þrátt fyrir að löndin liggi aðeins fjær. Það er mikilvægt að við fundum líka með þeim og berum saman ráð okkar.

Grænland er í næsta nágrenni við Kanada og Bandaríkin og þess vegna er eðlilegt að Grænlendingar líti í vestur en það þýðir engan veginn að þeir snúi baki í Norðurlönd. Það leikur enginn vafi á því að þeir vilja vera áfram virkir þátttakendur í norrænu fjölskyldunni.“

Tungumálin vefjast fyrir Grænlendingum

Á ferðum sínum fundaði Britt Lundberg með stjórnmálafólki en einnig fulltrúum annarra sviða þjóðlífsins. Hún segir það hafa komið sér þægilega á óvart hve mikill áhugi ríkti meðal Grænlendinga og Færeyinga á norrænum málefnum. Töldu þeir samstarfið afar mikilvægt.

„Grænland er í næsta nágrenni við Kanada og Bandaríkin og þess vegna er eðlilegt að Grænlendingar líti í vestur en það þýðir engan veginn að þeir snúi baki í Norðurlönd. Það leikur enginn vafi á því að þeir vilja vera áfram virkir þátttakendur í norrænu fjölskyldunni.“

Þó var eitt vandamál sem Grænlendingarnir vöktu máls á við forsetann og það var tungumálið. Margir Grænlendingar tala ekki dönsku og því vefst fyrir þeim að norrænt samstarf fer fram á skandinavísku málunum (dönsku, norsku og sænsku) með finnskum og íslenskum þýðingum og túlkun.

Þróa sjálfræði

Britt Lundberg tók eftir því að Grænlendingar og Færeyingar líta björtum augum til framtíðar. Grænlendingar vinna nú að nýrri stjórnarskrá og tala feimnislaust um sjálfstæði. Í Færeyjum er einnig unnið ötullega að því að þróa stjórnarfarið.

„Í Færeyjum er margt deiglunni og þar er ótrúlegur metnaður. Ég áttaði mig á því að það er greinilegt samhengi á milli þess að þróa stjórnarfarið og að þróa samfélagið í heild sinni,“ segir Britt Lundberg.

Færeyingar eru einnig að vinna nýja stjórnarskrá eins og Grænlendingar. Stefnt er að því að þjóðaratkvæðagreiðsla um nýja stjórnarskrá fari fram 2018 og þá verður tekin afstaða til ákvörðunarréttar þjóðarinnar um sjálfstæði þegar fram í sækir. Færeyingar sóttu nýlega um fulla aðild að Norðurlandaráði og er sú umsókn til meðferðar í ráðinu.

Sjálfstjórn til eftirbreytni í heiminum

Britt Lundberg undirstrikar að sjálfstjórnir Álandseyja, Færeyja og Grænlands eru mikilvægur auður í norrænu samstarfi. Sjálfstjórnarfyrirkomulagið sem þjóðirnar búa við er gott dæmi um hvernig hægt er að ná samkomulagi á friðsamlegan hátt og því er sjálfstjórn til eftirbreytni í heiminum.

Britt Lundberg heimsótti Grænland dagana 25.–27. apríl og Færeyjar 9.–11. maí.