Fyrrum forseti Norðurlandaráðs hlýtur Benelúx-verðlaunin

17.06.16 | Fréttir
Höskuldur Þórhallsson
Photographer
Magnus Fröderberg/norden.org
Höskuldur Þórhallsson, fyrrum forseti Norðurlandaráðs og fulltrúi í forsætisnefnd ráðsins, var á meðal þeirra sem hlutu Benelúx-verðlaunin (e. Benelux Awards) í Brussel á föstudag.

Verðlaunin eru veitt í viðurkenningarskyni fyrir gott samstarf. Fór afhendingin fram í tengslum við sameiginlegt þing Benelúx-ríkjanna, en á föstudag var áhersla lögð á málefni fólksflutninga á þinginu. Höskuldur Þórhallsson vakti máls á þeim efnahagslega ávinningi sem frjáls för á Norðurlöndum hefur í för með sér, og nefndi jafnframt þær áskoranir sem fylgt hafa auknu landamæraeftirliti milli Danmerkur og Svíþjóðar undanfarna mánuði.

„Nú, meira en nokkru sinni fyrr, þurfum við á samvinnu að halda í stað einangrunar til að finna sameiginlegar leiðir og lausnir. Ég tel afar mikilvægt að vekja athygli á og ræða viðfangsefni tengd fólksflutningum. Við höfum margt að læra hvert af öðru og góða reynslu til að miðla,“ sagði Höskuldur.

Norðurlandaráð á í samstarfi við bæði Eystrasaltsþingið og Benelúx-þingið á vettvangi norræna þingmannasamstarfsins. Á föstudaginn lýsti Höskuldur Þórhallsson ánægju sinni með hið góða samstarf Norðurlandaráðs við Benelúx-þingið.

„Norðurlöndin og Benelúx-löndin eru lík um margt. Bæði hafa svæðin áratuga reynslu af svæðisbundnu samstarfi. Ég fagna því að samstarfið hafi aukist og orðið nánara sem raun ber vitni á undanförnum árum.“

Aðrir handhafar Benelúx-verðlaunanna árið 2016 eru Frans Timmermans, fyrsti varaforseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, og Jānis Vucāns, forseti Eystrasaltsþingsins.