Haldið upp á afmæli Skráargatsins: Norræna Ráðherranefnd beitir sér fyrir hollustufæði á Norðurlöndum

04.03.15 | Fréttir
Nøglehullet
Norrænt samstarf um Skráargatismerkið er fimm ára. Haldið er upp á það með því að gera nýjar og strangari kröfur til matvæla sem bera merkið. Meðal annars verða gerðar kröfur um minna saltinnihald og aukið magn heilkorna. Ýmsar rannsóknir sýna að lýðheilsa batnar til muna þegar neytendur kaupa vörur með Skráargatsmerkinu.

Norðurlönd hafa um margra ára skeið starfað saman á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar að því að þróa norrænar leiðbeiningar um mataræði sem síðan eru lagðar til grundvallar ráðleggingum um mataræði í hverju landi. Á seinni árum hafa löndin jafnframt haft sameiginlega matvælamerkingu, Skráargatið, sem byggir á þessum leiðbeiningum.

„Skráargatið“ varð reyndar til í Svíþjóð, þar sem það hefur verið notað í 25 ár. En frá árinu 2009 hefur það breiðst út til annarra norræna landa, þannig að nú er það notað um öll Norðurlönd, að Finnlandi undanskildu. Haldið verður upp á fimm ára afmæli samstarfsins í Stokkhólmi 4. mars.

„Skráargatsmerkið hefur mikla þýðingu fyrir yfirvöld því það gerir þeim kleift að miðla góðum og auðskiljanlegum upplýsingum. En jafnframt taka neytendasamtök, smásöluverslunin og fyrirtæki þátt þannig að við getum í sameiningu hámarkað gagnsemi merkisins,“ segir Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, í tengslum við afmælið.

Nýju reglurnar, sem munu hafa áhrif á alla „fæðukeðjuna“ frá framleiðanda til neytenda, verða mótaðar í sameiningu á Norðurlöndum og þess vegna munu til dæmis reglur um lægra saltinnihald og meira af heilkornum gilda í öllum löndunum. Þó verður aðlögunartímabil þannig að framleiðendur hafi tíma til að laga vörurnar að nýju stöðlunum.

Stuðla að þróun nýrra vara

Ýmsar rannsóknir sem gerðar hafa verið í nokkrum norrænu landanna benda til þess að Skráargatið stuðli að þróun nýrra framleiðsluvara og hollari valkosta. Það er að miklu leyti smávöruverslunin sem heldur uppi eftirspurninni eftir vörum með skráargatsmerkingu. En það eru ekki síst þau fyrirtæki sem framleiða vörur sem fá merkinguna sem hafa gagn af þeirri styrkingu vörumerkisins sem Skráargatið veitir.

Skráargatið er í miklum vexti í öllum löndunum. Í Noregi standa nú um 2.000 matvörur með skráargatsmerkingu til boða í matvöruverslunum, en það eru fimm sinnum fleiri en árið 2009, og þrátt fyrir að merkið hafi ekki komið til sögunnar á Íslandi fyrr en árið 2013 þekkja nú þegar 90% markhópsins merkið. Í Finnlandi er notað samsvarandi merki, Hjartamerkið, sem byggir á sömu viðmiðum og Skráargatið.

Norræna ráðherranefndin hefur einnig kynnt starfið í kringum Skráargatið á alþjóðavettvangi, síðast á viðamikilli næringarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin var af Mavæla- og landbúnaðarstofnun SÞ (FAO) og Alþjóða heilbrigðismálastofnunni (WHO) í Róm í nóvember 2014. Þar hleypti Norræna ráðherranefndin meðal annars af stokkunum örvefnum Nutrition the Nordic Way sem segir frá öllu samstarfi Norðurlanda um næringu, allt frá svæðisbundinni framkvæmdaáætlun til neytenda.

Ráðherranefndin stóð einnig fyrir hliðarviðburði um offitu og ofþyngd sem er vaxandi vandamál á heimsvísu og sem ætlunin er að draga úr með aðferðum á borð við skráargatsmerkinguna.

Eflir lýðheilsu

Rannsóknir benda til þess að Skráargatið stuðli að hollara mataræði.

Magn heilkorna er margfalt meira í brauði og pasta með skráargatsmerkingu. Neysla mettaðrar fitu minnkar um 40% og neysla viðbætts sykurs minnkar um samtals 9%. Samkvæmt niðurstöðum sænskrar rannsóknar verður heildarneysla hitaeininga 10% lægri ef Skráargatið er alltaf valið.

Á grundvelli danskrar rannsóknar á mataræði hefur verið reynt að meta áhrifin af því að skipta út annarri matvöru með matvöru með skráargatsmerkingu. Samkvæmt rannsókninni væri hægt að draga úr neyslu mettaðrar fitu um samtals 27% og minnka saltneyslu um 1 gramm á dag. Jafnframt gætu Danir, með aðstoð Heilkornsmerkisins, aukið heilkornaneyslu sínu um 76%.

Nýju reglurnar um skráargatsmerkinguna snúast einmitt um að draga enn frekar úr saltinnihaldinu og auka neyslu á grófu kornmeti, í fullu samræmi við nýjustu norrænu leiðbeiningarnar um mataræði frá 2012.

Á heildina litið auðveldar Skráargatið til muna að fylgja leiðbeiningunum um mataræði á Norðurlöndum. Þannig að það er full ástæða til að halda upp á afmælið 4. mars og allt bendir til þess að hollustan sé í sókn á Norðurlöndum.

 

UPPLÝSINGAR UM SKRÁARGATIÐ

  • Skráargatið sýnir hollustu valkostina í hverjum vöruflokki.
  • Til þess að fá skráargatsmerkingu þarf viðkomandi vara að innihalda minna salt og sykur, minna eða hollari fitu og meira af grófu kornmeti og trefjum en aðrar sambærilegar vörur.
  • Skráargatsmerkinguna er meðal annars að finna á brauði, grjónum, mjólkurafurðum, matarolíu og tilbúnum réttum.
  • Nota má skráargatsmerkinguna á alla ferska ávexti, grænmeti, fisk og magurt kjöt
  • Merking með Skráargatinu er ókeypis og öllum er frjálst hvort þeir nota hana.
  • Framleiðandi matvörunnar ber ábyrgð á því að reglunum sé fylgt.

Nánari upplýsingar um Skráargatið og nýju reglurnar er að finna á eftirfarandi vefsetrum í löndunum::
 

Heildaryfirlit yfir samstarf Norðurlanda á sviði næringar.