Hljómgrunnur fyrir nýjum norrænum sjónvarpsverðlaunum

04.04.17 | Fréttir
Stjórnmálamennirnir í norrænu þekkingar- og menningarnefndinni hjá Norðurlandaráði styðja þá hugmynd að veita norræn sjónvarpsverðlaun, í viðurkenningarskyni fyrir þau jákvæðu áhrif sem sjónvarpsþáttaraðir hafa haft á gagnkvæman málskilning norrænna grannþjóða.

Sjónvarpsverðlaun

Stjórnmálamennirnir hafa þó áhyggjur af því að einn verðlaunaflokkur til viðbótar kynni að draga úr gildi verðlauna Norðurlandaráðs. Þeir leggja því til að sjónvarpsverðlaun yrðu sameinuð kvikmyndaverðlaunum Norðurlandaráðs, eða verðlaunahátíðinni Nordiske Seriedager, sem verður haldin í fyrsta sinn í tengslum við samnefnda ráðstefnu í Noregi 28.–29. september.

Hreyfanleiki námsfólks

Norræna stjórnmálafólkið ræddi einnig tillögu Norðurlandaráðs æskunnar, þess efnis að efla hreyfanleika námsfólks milli Norðurlanda með sameiginlegri umsóknagátt. Stjórnmálamennirnir vilja kanna möguleika á því að hvetja norrænu menntamálaráðherrana til þess að gera aðgerðaáætlun sem efli hreyfanleika námsfólks innan Norðurlanda.

Frjáls, lýðræðisleg umræða 

Í tengslum við meginþema þemaþings Norðurlandaráðs, „Norðurlönd og Bandaríkin“, lögðu stjórnmálamennirnir í norrænu þekkingar- og menningarnefndinni áherslu á mikilvægi þess að efla og standa vörð um menntakerfi sem geri börn og ungmenni í stakk búin til að taka gagnrýna afstöðu til umfjöllunar fjölmiðla. Að lokum bentu þeir á að norrænu ríkisfjölmiðlarnir gegndu afar mikilvægu hlutverki í löndunum og að þýðingarmikið væri að tryggja áfram framboð af óháðum og hlutlausum fjölmiðlum, enda væri það forsenda frjálsrar, lýðræðislegrar umræðu í norrænu löndunum.