Hvaða þýðingu hefur landamæraeftirlitið fyrir norrænt samstarf?

07.03.16 | Fréttir
Henrik Dam Kristensen
Photographer
Johannes Jansson/norden.org
Norðurlandaráð kemur saman til þemaþings í Ósló 18.-19. apríl til að ræða áhrif landamæraeftirlitsins á norrænt samstarf. Viljum við að framtíð Norðurlanda verði þannig að við lokum á hvert annað og lokum á umheiminn?

Landamæraeftirlitið átti að vera tímabundin ráðstöfun vegna sérstakra aðstæðna. En nú sjáum við að flóttamannastraumurinn til Norðurlanda á kannski eftir að standa í mörg ár og við verðum því að ræða hvaða þýðingu landamæraeftirlitið hefur fyrir norrænt samstarf.

Í meira en sextíu ár hefur reglan um frjálsa för gilt á Norðurlöndum. Hún gildir ekki lengur. Hinn 4. janúar síðastliðinn innleiddu Svíar skilríkjaeftirlit á landamærunum að Danmörku. Morgan Johansson, dóms- og fólksflutningaráðherra, segir nú að Svíar hafi ákveðið að framlengja landamæraeftirlitið um þrjátíu daga og hann útilokar ekki að eftirlitið geti staðið í langan tíma.

Ræða þarf landamæraeftirlitið

„Landamæraeftirlitið átti að vera tímabundin ráðstöfun vegna sérstakra aðstæðna. En nú sjáum við að flóttamannastraumurinn til Norðurlanda á kannski eftir að standa í mörg ár og við verðum því að ræða hvaða þýðingu landamæraeftirlitið hefur fyrir norrænt samstarf," segir Henrik Dam Kristensen frá Danmörku, en hann gegnir stöðu forseta Norðurlandaráðs á þessu ári.

Svo getur farið að önnur norræn lönd fari að fordæmi Svía. Í Noregi er ríkisstjórnin að ræða hvort setja eigi lög sem heimili að landamærin verði lokuð hælisleitendum sem koma gegnum Svíþjóð ef ástandið verður varhugavert.

Sameiginlegt norrænt landamæraeftirlit?

Einnig er hugsanlegt að rætt verði um sameiginlegt norrænt landamæraeftirlit. Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, hefur vakið máls á sameiginlegum landamærum að Þýskalandi. Hann hefur stuðning Svíþjóðardemókrata, en þeir vilja líka að haft verði sameiginlegt eftirlit við ytri landamæri Norðurlanda.

„Ég sé að sumir hafa vakið máls á því að Norðurlöndin taki höndum saman í eftirliti með ytri landamærum okkar og um það verður eflaust deilt þegar norrænir stjórnmálamenn hittast á þemaþinginu í Ósló í apríl,“ segir Henrik Dam Kristensen.

Skráning fjölmiðlafólks

Ekki vandalaust

Landamæraeftirlitið milli Svíþjóðar og Danmerkur hefur um þessar mundir áhrif á tugþúsundir manna sem sækja vinnu eða nám yfir landamærin og það getur einnig haft neikvæð þjóðhagsleg áhrif. Opin landamæri hafa nefnilega falið í sér efnahagslegan ávinning sem árlega hefur skilað danska hagkerfinu meira en fimm milljörðum danskra króna. Jafnframt hafa Svíar notið góðs af danska vinnumarkaðinum þegar skortur hefur verið á störfum i Svíþjóð.

Nánari upplýsingar um þemaþing Norðurlandaráðs í Ósló: