Hvernig sköpum við traustar lausnir í lýðheilsumálum?

19.05.17 | Fréttir
Fitness i Reykjavik
Photographer
Yadid Levy / Norden.org
Norræna lýðheilsuráðstefnan 2017 mun fjalla um lýðheilsu í velferðarsamfélagi á tímum breytinga og hvernig við sköpum traustar lausnir.

Norræna lýðheilsuráðstefnan á sér langa sögu allt frá árinu 1987 sem fundarstaður atvinnufólks í heilbrigðisgeira um lýðheilsu og lýðheilsustarf á Norðurlöndum. Að þessu sinni sjá dönsku heilbrigðisyfirvöldin, Sundhedsstyrelsen, um undirbúning ráðstefnunnar en hún verður haldin í Álaborg á Jótlandi. Undirbúningurinn fer fram í nánu samstarfi við finnsk, íslensk, norsk og sænsk heilbrigðisyfirvöld.

Norrænu heilbrigðisráðherrarnir (MR-S) fjármagna Norrænu lýðheilsuráðstefnuna 2017 að hluta til með hálfri milljón danskra króna. Emil Bengtson, verkefnisráðinn starfsmaður á skrifstofu ráðherranefndarinnar, útskýrir ákvörðun ráðherranna um að styrkja ráðstefnuna:

„Ráðherranefndin hefur metnað um að efla norrænt samstarf um lýðheilsumál og draga úr heilsuójöfnuði. Ráðstefnan er mikilvægur fundarstaður til að efla samstarf norrænu landanna, einnig Álandseyja, Færeyja og Grænlands. Með því að fjármagna ráðstefnuna að hluta til vill ráðherranefndin tryggja þátttöku sérfræðinga og annarra aðila hvaðanæva að frá Norðurlöndum. Markmiðið er jafnframt að miðla mikilvægum niðurstöðum og boðskap ráðstefnunnar áfram og koma með hugmyndir að norrænu samstarfi til framtíðar.“

- Hver eru mikilvægustu málin á dagskrá ráðstefnunnar?

„Á ráðstefnunni verður rætt um mikilvæg viðfangsefni sem löndin standa frammi fyrir, þar á meðal heilsuójöfnuð meðal almennings og aukna tíðni geðrænna kvilla í tilteknum samfélagshópum.“

- Hvers vænta norrænu heilbrigðisráðherrarnir sér af ráðstefnunni?

„Að sú þekking og reynsla sem kemur fram á ráðstefnunni í ár geti nýst við stefnumótun í norrænu samstarfi til framtíðar en einnig að hún verði hvetjandi fyrir lýðheilsustarf í löndunum, svæðisbundið og í borgum Norðurlanda.“

- Hvernig mun það gagnast íbúum Norðurlanda?

„Þegar fólk sem starfar að lýðheilsumálum, á landsvísu og staðbundið, hittist og skiptist á hugmyndum stuðlum við einnig að þróun nýrra og betri aðgerða og aðferða og það kemur Norðurlandabúum til góða.“

Dagskrá ráðstefnunnar er glæsileg að vanda og sérfræðingar munu m.a. ræða: Heilsuójöfnuð, geðheilsu, félagslega sjálfbærni og félagslega markaðssetningu. Sérfræðingarnir fjalla um áskoranir og tækifæri í heilbrigðismálum innan ramma norrænna velferðarkerfisins. Á ráðstefnunni verða margir áhugaverðir fyrirlestrar en auk þess verður farið í námsferðir þar sem skoðaðar verða staðbundnar aðgerðir í heilbrigðismálum.

Lesið nánir og skráið ykkur á ráðstefnuna hér.