Ísland háðara vöruútflutningi en hin Norðurlöndin

30.03.14 | Fréttir
Grafer og penge
Ísland flutti út vörur fyrir 3,9 milljarða evra árið 2012, sem er tæplega 8% aukning miðað við 2008. Vöruútflutningurinn er 37% af landsframleiðslu sem er nokkuð hærra en á hinum Norðurlöndunum. Útflutningur til nýrra hagvaxtarsvæða jókst talsvert á timabilinu samkvæmt nýrri skýrslu sem norrænu hagstofurnar unnu fyrir Norrænu ráðherranefndina.

Skýrslan sýnir mikla aukningu í sölu á íslenskum vörum til BRIK-landanna, Brasilíu, Rússlands, Indlands og Kína, eða um 59%. Útflutningur til hinna svokölluðu Next-11 landa, sem eru nýjustu hagvaxtarsvæðin í heiminum, jókst um 157% á sama tíma. Skýringuna er að finna í sölu á fiski. Fiskafurðir voru 71% af útfluttum vörum til BRIK-landanna og 86,1% útflutnings til Next-11 markaðanna. Útflutningsverðmæti vara á Bandaríkjamarkað dróst saman um 16%.

Evrópa er lang mikilvægasti markaður Íslendinga. 70% af vöruútflutningi þjóðarinnar árið 2012 var til Evrópulanda, og var Holland stærsti einstaki markaðurinn. Vöruútflutningur þangað nam 30% af heildarútflutningi og hlutur Þýskalands, sem er í öðru sæti, var 12,9%,  eða 506 milljónir evra.

Tveir vöruflokkar báru höfuð og herðar yfir allar aðrar útflutningsvörur, annars vegar fiskur og hins vegar málmar, aðrir en járn og stál. Fiskútflutningur skilaði 38% af útflutningsverðmætinu, og samanlagt stóðu vöruflokkarnir tveir fyrir 75% af vöruútflutningi landsins.  sem þessirmaðurinn.  Útflutningur fiskafurða jókst um 24% á milli áranna 2008 og 2012, úr 1,2 milljörðum í 1,5 milljarða evra. Talan samsvarar um 7% af fiskútflutningi Evrópusambandsríkjanna.

Lítil og meðalstór fyrirtæki eru í lykilhlutverki, sérstaklega á nýju hagvaxtarsvæðunum. Hlutdeild þeirra í heildarvöruútflutningi Íslands var 42%, en ef einungis er litið til BRIK-landanna og Next-11 markaðanna var hlutdeildin um 80%.

Samdráttur í markaðshlutdeild Norðurlandanna

Niðurstöður skýrslunnar gefa til kynna að staða Norðurlandanna á útflutningsmörkuðum hafi versnað hlutfallslega á tímabilinu. Heildarútflutningur landanna árið 2012 var 402 milljarðar evra, en hefði verið 31 milljarði hærri ef markaðshlutdeild þeirra hefði haldist óbreytt.

- Það verður að viðurkennast að þrátt fyrir að Norðurlöndin í heild komi betur út úr kreppunni en flest önnur lönd þá er talsverð pressa á okkur á útflutningsmörkuðunum. Norræna ráðherranefndin hefur síðustu ár lagt áherslu á grænan hagvöxt og aukna samvinnu landanna til þess að mæta þeim áskorunum sem felast í alþjóðavæðingunni. Við vonumst meðal annars til þess að sú vinna skili sér í auknum útflutningi, segir framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, Dagfinn Høybråten

Norðurlöndin misstu 0,6 % af útflutningshlutdeild sinni samanborið við heildarútflutning ESB-ríkjanna. Hlutdeildin minnkaði um 2,0 % í BRIK-löndunum og 0,6 % í Bandaríkjunum. Útflutningur til Next-11 landanna jókst, mestmegnis vegna aukinnar sölu á hráolíu frá Noregi til S-Kóreu.

Helstu söluvörur Norðurlandanna eru olíuafurðir, sem eru 18,8 % af heildarútflutningi þeirra, og fiskur, sem er 3,3 % af útflutningnum. Aðrir mikilvægir vöruflokkar eru matvörur, pappírsvörur, pels- og skinnaafurðir og lækninga- og lyfjavörur.

Störfum hjá norrænum útflutningsfyrirtækjum fækkaði um 157.000 frá 2008 til 2012.

Umfangsmikil greining á útflutningsþróun

Skýrslan Nordic Exports of Goods and Exporting Enterprises var unnin af norrænu hagstofunum fyrir Norrænu ráðherranefndina. Hún verður kynnt á ráðstefnunni Nordic Growth through Export, sem Nordic Innovation heldur í Kaupmannahöfn 3. apríl næstkomandi.

Greiningin sýnir hvaða vörur eru mikilvægastar og hvernig löndunum vegnar á helstu mörkuðum, í ESB og Bandaríkjunum, á háhagvaxtarsvæðunum í BRIK-löndunum (Brasilíu, Rússlandi, Indlandi og Kína) og í Next-11 löndunum (Bangladess, Egyptalandi, Indónesíu, Íran, S-Kóreu, Mexíkó, Nígeríu, Filippseyjum, Pakistan, Tyrklandi og Víetnam).

Nánari upplýsingar

Ítarlegri upplýsingar um skýrsluna veita:

Frederik Waitz
Ráðgjafi, Upplýsingadeild Nordic Innovation
+47 951 59 868
f.waitz@nordicinnovation.org

Michael Funch
Ráðgjafi, Upplýsingadeild Norrænu ráðherranefndarinnar
+45 2171 7143
mifu@norden.org