Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hlýtur Norrænu lýðheilsuverðlaunin

16.10.14 | Fréttir
Markmið Norrænu ráðherranefndarinnar (NMR) og Norræna lýðheilsuháskólans (NHV) með Norrænu lýðheilsuverðlaununum er að vekja athygli á mikilvægu starfi í þágu heilbrigðis og vellíðunar. Að þessu sinni hlýtur Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) verðlaunin fyrir starf í tengslum við hreyfingu og lífsstíl almennings.

Verðlaunin eru veitt einstaklingi, samtökum eða stofnun sem lagt hefur mikið af mörkum til bættrar lýðheilsu á Norðurlöndum. Að þessu sinni afhendir Kristján Þór Júlíusson verðlaunin í tengslum við fund heilbrigðis- og félagsmálaráðherra Norðurlanda í Kaupmannahöfn 16. október næstkomandi.

Hvatning til að halda áfram

– Við höfum um árabil hvatt fólk til að taka þátt í þeirri fjölbreyttu líkamlegu hreyfingu sem boðið er upp á. Það er okkur heiður að hljóta Norrænu lýðheilsuverðlaunin. Verðlaunin eru mikil viðurkenning og fela í sér hvatningu til að halda áfram starfi okkar að lýðheilsumálum segir Líney R. Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.

Rökstuðningur

Í rökstuðningi fyrir verðlaunaveitingunni segir: „Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) hefur í meira en tvo áratugi haft mikil áhrif á lýðheilsu á Íslandi með því að leggja áherslu á að almenningur lifi heilbrigðu lífi. ÍSÍ hefur haft frumkvæði að áætlunum um hreyfingu, lífsstíl og vellíðan almennings. Áætlanirnar hafa haft mikil áhrif á fólk á öllum aldri og skilað góðum árangri hjá áhættuhópum. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands er verðugur handhafi Norrænu lýðheilsuverðlaunanna 2014 fyrir skilvirkt og kerfisbundið starf að lýðheilsumálum.“

Norrænu lýðheilsuverðlaunin
Með Norrænu lýðheilsuverðlaununum vekja Norræna ráðherranefndin og Norræni lýðheilsuháskólinn athygli á mikilvægu starfi í þágu heilbrigðis og vellíðunar. Þar er átt við félagslega, líkamlega og andlega þætti í umhverfinu, þætti sem hafa áhrif á lífsstíl, en jafnframt skipulag og starfshætti heilbrigðis- og sjúkraþjónustu. Verðlaunin eru veitt einstaklingi, samtökum eða stofnun sem lagt hefur mikið af mörkum til bættrar lýðheilsu á Norðurlöndum.