Jafnrétti er besta fjárfestingin

11.10.17 | Fréttir
Panelen UNGA72
Photographer
Pontus Höök
Þeim löndum sem vilja kynnast því hvernig fjárfesting í jafnrétti getur örvað hagvöxt fer fjölgandi. Samt sem áður hika margar ríkisstjórnir enn þegar kemur að kostnaðinum. Spotify og fleiri alþjóðleg fyrirtæki sem bjóða starfsmönnum sínum fæðingarorlof á launum eru mikilvægir hvatar að breytingum. Þetta kom fram í umræðum undir yfirskriftinni Parental leave, a key to prosperity – and other true stories í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York í september.

- Farsímar, bílar og olía eru ekki helsti drifkraftur hagvaxtar á Norðurlöndum. Jafnrétti hefur verið mikilvægasta fjárfestingin okkar, sagði Børge Brende, utanríkisráðherra Noregs þegar hann opnaði umræðuna í leiðtogaviku Sameinuðu þjóðanna.

Hann lagði áherslu á þá innviði sem byggðir hefðu verið upp á Norðurlöndum á áttunda og níunda áratugnum með launuðu fæðingarorlofi og traustri ummönnun barna og aldraðra.  Sú fjárfesting leiddi til þess að hlutfall kvenna á vinnumarkaði á Norðurlöndum jókst frá því að vera um 45 prósent í um 75 prósent.

Alþjóðleg eftirspurn

Einmitt nú ríkir mikill áhugi í alþjóðasamfélaginu á því hvernig Norðurlöndin hafi farið að því að ná svo góðum árangri þegar kemur að jafnrétti á vinnumarkaði, ekki síst vegna þess að jafnrétti er eitt af 17 markmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Í umræðum leiðtoganna hjá Sameinuðu þjóðunum var lögð áhersla á þær hliðar jafnréttis sem snúa að hagrænum áhrifum á samfélagið og atvinnulífið og á það hvernig stjórnvöld geti stuðlað að breytingum í samvinnu við atvinnulífið.  

Phumzile Mlambo-Ngcuka, framkvæmdastýra Jafnréttisstofnunar Sameinuðu þjóðanna, UN Women, sagði að nokkrar þjóðhagslega mikilvægar stofnanir eins og Alþjóðabankinn og Alþjóðaefnahagsráðið, World Economic Forum, ríki nú skilningur á efnahagslegu mikilvægi launaðs fæðingarorlofs bæði fyrir mæður og feður. Í mörgum löndum blasa við lýðfræðilegar áskoranir og ljóst er að þar þarf að auka frjósemi.

Verður að ná þangað sem stóru ákvarðanirnar eru teknar

- Það er jákvætt og þýðir að við erum á einhverri vegferð.  En boðskapurinn heyrist ekki nægilega vel þangað sem stóru ákvarðanirnar eru teknar. Stefna yfirvalda verður að skapa þannig skilyrði fyrir atvinnurekendur að þeir ráði bæði mæður og feður til starfa, sagði hún.

Kristin Skogen Lundur, leiðtogi norsku samtaka atvinnulífsins, Næringslivets Hovedorganisasjon, NHO, tók undir það að atvinnulífið þyrfti að fá regluumgerð frá hinu opinbera sem snúi að réttinum til fæðingarorlofs og umönnunar barna.

- Það kann að virðast þversagnarkennt að fyrirtæki hvetji starfsmenn til að vera frá vinnu en það er besta fjárfestingin sem við getum gert. Verðmæti hins háa hlutfalls kvenna á vinnumarkaði í Noregi er meira en sem nemur olíuhagnaðinum, segir hún.

Fæðingarorlof feðra mikilvægasta málefnið

Samtök atvinnulífsins í Noregi telja að fæðingarorlofskvóti fyrir feður, þ.e. orlofsdagar sem eingöngu eru til ráðstöfunar fyrir feður, sé einn mikilvægasti þátturinn í því að fjölga konum í leiðandi störfum í Noregi.

- Það er ekki fyrr en maður öðlast reynslu af því að hafa tekið meginábyrgð á barni og heimili á löngu tímabili sem mynstrið getur breyst. Þetta mun breyta starfsferli bæði karla og kvenna, sagði Kristin Skogen Lund og bætti við að langan tíma tæki að breyta hefðum.

Tónlistarveitan Spotify sem er með starfsfólk í Bandaríkjunum, Evrópu, Brasilíu, Japan, Singapúr og Ástralíu vakti gríðarlega athygli þegar fyrirtækið árið 2015 tók upp sex mánaða launað fæðingarorlof fyrir alla starfsmenn sem eignuðust börn.

Spotify skapar nýja menningu

Isa Notermans, alþjóðlegur framkvæmdastjóri margbreytileika og samþættingar hjá Spotify sagði að ávinningurinn gerði fyrirtækinu kleift að auka hlutfall kvenna í starfi úr 22 prósentum í 46 prósent.

Samt sem áður sagði hún að að það væri alls ekki auðvelt að fá starfsmennina til þess að nýta sér þessi hlunnindi.

- Bæði karlar og konur í starfsstöð Spotify í Bandaríkjunum eru hikandi við að taka fæðingarorlof vegna þess að þau hafa áhyggjur af því að það kunni að hafa áhrif á starfsframa þeirra. Við verðum að skapa nýja menningu sem gerir foreldrahlutverkið sýnilegt og sýnir fram á að jafnvægi milli atvinnulífs og einkalífs sé fyrirtækinu í hag. Sú menning byggir á heldur minni einstaklingshyggju en ameríska menningin sem ríkir í umhverfi okkar, sagði Isa Notermans.  

Fjárfesting í umönnun borgar sig

Sharan Burrow, aðalritari Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, ITUC, benti á að ef verulegur fjöldi alþjóðlegra fyrirtækja gerðu eins og Spotify þá gæti það verið hvatning fyrir ríkisstjórnir sem hika við að fjárfesta í innviðum eins og fæðingarorlofi og niðurgreiðslum á umönnun barna og aldraða.

- Við skulum sjá til þess að fyrr en varir muni 100 alþjóðleg fyrirtæki bjóða starfsfólki sínu grundvallarréttindi, hvort sem það starfar í Bandaríkjunum eða Nígeríu! sagði hún.

Sharan Burrow lítur hins vegar svo á að ríkisstjórnirnar hafi í raun enga ástæðu til þess að hika:

- Sé vilji til þess að fá konur út á vinnumarkaðinn verður að fjárfesta í umönnun. Ef tveimur prósentum af landsframleiðslu er fjárfest í umönnun, skilar það fjölgun á vinnumarkaði sem nemur sex prósentum, sagði hún.

Norræn reynsla skiptir máli 

Norræna vinnumarkaðskerfið er einstakt vegna þess að fjárfestingar í jafnvægi milli atvinnulífs og einkalífs hafa rutt brautina að því að foreldrar skipti með sér ábyrgð á afkomu og umönnun.

Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, hélt því engu að síður fram að önnur lönd, á mismunandi þróunarstigum gætu fært sér reynsluna frá Norðurlöndum í nyt.

- Ég er sannfærður um að reynsla okkar skiptir máli fyrir önnur lönd. Félagslegur samningur liggur til grundvallar: Þú leggur til samfélagsins og greiðir skatta og færð í staðinn ákveðin réttindi. Hægt er að stofna til slíks félagslegs samnings á mismunandi stigum. Mörg þróunarríki búa við meiri hagvöxt en við, en eiga í erfiðleikum með jöfnuð og skiptingu hagvaxtarins, segir Dagfinn Høybråten. 

Hann lýsti norræna framtakinu sem nefnt er The Nordic Gender Effect og er ætlað að að vera svar við mikilli alþjóðlegri eftirspurn eftir reynslu Norðurlandanna af jafnréttisstefnu sinni.

- Við erum fús til þess að deila reynslu okkar vegna þess að við teljum að fleiri en við geti haft af henni gagn. Og samkvæmt okkar reynslu snýst jafnrétti er ekki bara um það sem er rétt heldur er einnig um það sem er skynsamleg, segir Dagfinn Høybråten.