Jarðefni, námuvinnsla og almenningur

08.04.14 | Fréttir
Arto Pirttilahti
Photographer
Johannes Jansson/norden.org
Vaxandi eftirspurn eftir jarðefnum á heimsvísu hefur í för með sér stóraukin umsvif í námuiðnaði á Norðurlöndum. Afleiðingar námuvinnslu fyrir almenning, einkum á norðurslóðum, voru í brennidepli á þemaþingi Norðurlandaráðs á Akureyri.

Í Svíþjóð einni er reiknað með að námum muni fjölga úr 16 í 46 á næstu árum.

„Samkeppnin færist í aukana. Ágangur á auðlindir náttúrunnar veldur nýjum deilum við frumbyggjana, landeigendur og aðra aðila, ekki síst innan ferðaþjónustu,“ sagði Arto Pirttilahti, fulltrúi í efnahags- og viðskiptanefnd Norðurlandaráðs, þegar hann gerði grein fyrir tillögu nefndarinnar um sjálfbæra norræna námuvinnslu.

Finn Sørensen, fulltrúi velferðarnefndar, lagði áherslu á nauðsyn þess að virða þarfir og hagsmuni íbúa á norðurslóðum og ennfremur að atvinnurekstur á svæðinu taki mið af hinum tíu grunnreglum samkomulags Sameinuðu þjóðanna um siðferði og ábyrgð í viðskiptum (Global Compact).

Høgni Hoydal, fulltrúi í flokkahópi vinstri sósíalista og grænna, tók undir orð hans og benti á að leggja ætti yfirlýsingu SÞ um réttindi frumbyggja og þjóðarétt til grundvallar öllum umsvifum á norðurslóðum.

Eygló Harðardóttir, samstarfsráðherra Íslands, lagði orð í belg og þakkaði fyrir hugmyndir frá þingmönnum Norðurlandaráðs og Jóni Gunnarssyni, fulltrúa í fastanefnd þingmannanefndar norðurskautsins. Að sögn Eyglóar vinnur Norræna ráðherranefndin nú að nýrri samstarfsáætlun um málefni norðurslóða, sem lögð verður fyrir þing Norðurlandaráðs í október.

Contact information