Kjör barna og ungmenna til hliðsjónar á öllum sviðum samstarfsins

19.04.16 | Fréttir
Anna Abrahamsson
Photographer
Magnus Fröderberg/norden.org
Norðurlönd eiga að vera besti staður í heimi fyrir börn og ungmenni að alast upp á. Þessa framtíðarsýn eiga norrænu ríkisstjórnirnar að sameinast um, óháð þeim stefnusviðum sem þær eiga samstarf um hverju sinni. Hin nýja Stefna í málefnum barna og ungmenna á Norðurlöndum var rædd og samþykkt af Norðurlandaráði á þinginu í Ósló í dag.

„Það er ekki hægt að skipta lífi barna og ungmenna í „svið“ á sama hátt og starfi okkar. Þegar unnið er að málefnum barna og ungmenna þarf að hafa bæði heildræna og þverfaglega sýn. Barnið á að vera í forgrunni. Skipulagslegar takmarkanir okkar eiga ekki að standa í vegi fyrir því,“ sagði Elisabeth Aspaker, samstarfsráðherra Noregs, í upphafi umræðnanna.

Stefnunni er ætlað að tryggja að Norræna ráðherranefndin muni ávallt hafa málefni og réttindi barna og ungmenna til hliðsjónar við stefnumótun og ákvarðanatöku.  

Stefnan var unnin af Norrænu barna- og ungmennanefndinni (NORDBUK), sem er ráðgjafaraðili Norrænu ráðherranefndarinnar um öll málefni barna og ungmenna, en í henni sitja fulltrúar ráðuneyta, yfirvalda og æskulýðssamtaka.

Ungmenni eiga að vera sýnileg

Mörgum aðilum hefur gefist færi á að hafa áhrif á stefnuna, meðal annars æskulýðssamtökum frá öllum Norðurlöndunum og umboðsmönnum barna í löndunum.

Norðurlandaráð æskunnar hefur einnig lagt sitt af mörkum:

„Við höfum beitt okkur fyrir því að stefnan styðji við lýðræðisþátttöku og samstarfsleiðir ungs fólks í ýmsum myndum. Það er afar mikilvægt að ungt fólk sé sýnilegt í norrænu samstarfi,“ segir Anna Abrahamsson, forseti Norðurlandaráðs æskunnar.

Fyrsta norræna stefnan um málefni barna og ungmenna var skrifuð fyrir áratug síðan, en úttekt hefur leitt í ljós að hún er hvorki vel þekkt né mikið notuð.

Barnasáttmálinn

Í nýju stefnunni eru settar fram skýrari kröfur um mælanleg markmið og skýrari áhersla á réttindi barna, sem tekur mið af Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Mia Varming Rangholm, sem hefur gegnt formennsku í NORDBUK bróðurpart þess tíma sem unnið hefur verið að stefnunni, er vongóð um árangurinn:

„Stefnan mun stuðla að því að sjónarmið og lífskjör barna og ungmenna verði höfð til hliðsjónar í öllu starfi ráðherranefndarinnar sem snertir börn og ungmenni á einhvern hátt, á ýmsum samstarfssviðum,“ segir hún.

Og hver heldur þú að áhrifin verði?

„Ég held að við unga fólkið munum koma til með að geta haft meiri áhrif. Ég tel að stefnan muni koma sér vel fyrir þá kynslóð sem nú er að vaxa úr grasi, svo og næstu kynslóðir,“ segir Mia Varming Rangholm.

Börn á flótta

Um leið og stefnan hefur verið samþykkt af Norðurlandaráði verður hafist handa við að samþætta hana inn í það pólitíska starf sem nú stendur yfir.

Meðal annars munu ráðherranefndirnar um jafnréttismál, menningarmál, menntamál, félagsmál og vinnumál grípa til sérstakra aðgerða fyrir börn og ungmenni á tilteknum sviðum. Ráðherranefndirnar eiga ennfremur að setja sér mælanleg markmið fyrir þessar aðgerðir.

 Til dæmis munu félagsmálaráðherrarnir grípa til sérstakra aðgerða fyrir börn á flótta og til að efla geðheilsu barna, á þessu ári og því næsta.