Komið verði á fót norrænum vettvangi vegna plasts í hringrásarhagkerfinu

24.04.18 | Fréttir
Plast på strand
Photographer
Heidi Orava/norden.org
Á Norðurlöndum eru miklir ónýttir möguleikar á endurnýtingu og endurvinnslu plasts. Norrænu ríkin ættu að koma á fót vettvangi til þess að tryggja sjálfbærni plasts og styrkja hringrásarhagkerfið. Þetta fullyrðir Tine Sundtoft fyrrverandi loftslags- og umhverfismálaráðherra Noregs í nýrri skýrslu.

Tiltölulega lágt hlutfall plasts er nú endurnýtt á öllum Norðurlöndunum og 700.000 tonn af plasti eru árlega brennd eða fleygt á öskuhauga í öllum löndunum.

Að mati Tine Sundtoft verður að forgangsraða plasti frekar í umskiptunum frá línulegu hagkerfi til hringrásarhagkerfis og hún óskar eftir því aukinni samhæfingu norrænu ríkjanna varðandi þekkingarmyndun, miðlun reynslu og tiltekinna aðgerða í löndunum. Samráðsvettvangur þar sem unnið er að samhæfingu vel heppnaðra aðgerða sem þegar eru til staðar í löndunum gæti auk þess verið mikilvægt framlag til þróunar á plaststefnu í Evrópu.

„Okkur vantar enn vöruhönnun með áherslu á efnisval þar sem gengið er út frá þeirri staðreynd að vara sem framleidd er úr plasti verður að endast lengi og henta til endurvinnslu þegar hún er ónýt eða nýtist ekki lengur.“ Einnig verður að þróa markað fyrir endurunnið plast segir Tine Sundtoft sem í skýrslu sinni Góðir grannar – Norðurlönd á tímum grænna umskipta kynnir tólf stefnumótandi tillögur um sóknarfæri í norrænu samstarfi um umhvefis- og loftslagsmál.

Eiturefnalausar virðiskeðjur

Samstarfs- og samhæfingarvettvangur vegna plasts ætti samkvæmt skýrslunni að stuðla að því að skapa gegnsæi í virðiskeðjum varðandi val á efnum og íblöndunarefnum – þar á meðal skaðlegum efnum.

„Leggja ber áherslu á að öll notkun plasts falli að hringrásarhagkerfi og sé eiturefnalaus. Forsendan fyrir því að hringrásin verði eiturefnalaus er að hættulaus efni komi í stað þeirra sem valda vandræðum í öllum efnivið sem á að endurvinna,“ segir Tine Sundtoft.

Plast hefur í mörg ár verið ofarlega á stefnuskrá norræns samstarfs, meðal annars gegnum Norræna áætlun til þess að draga úr umhverfisáhrifum af plasti (2017-2018).

Plastvettvangurinn sem nú hefur verið lagt til að komið verði á fót ætti samkvæmt skýrslunni að gera starfið skilvirkara með því að mæta þörfum með sameiginlegum rannsóknarverkefnum, uppbyggingu þekkingar, þróun fjármögnunartækja og samskiptum við lykilhagsmunaaðila.

„Norðurlöndin hafa alltaf verið í forystu í umhverfis- og loftslagsmálum. Hér eru miklir möguleikar til þess að skapa norrænan virðisauka sem einnig getur nýst utan Norðurlanda,“ segir Tine Sundtoft.

Skýrlan Skýrslan Góðir grannar – Norðurlönd á tímum grænna umskipta er unnin að beiðni norrænu ráðherranefndarinnar um umhverfis- og loftslagsmál. Hún byggir á tæplega 120 samtölum sem Tine Sundtoft átti við stjórnmálafólk, embættisfólk, umhverfissamtök og fulltrúa atvinnulífs á Norðurlöndum og alþjóðlega.

Skýrslan í heild sinni