Lagabreytingar auka hreyfanleika Norðurlandabúa

25.06.18 | Fréttir
Tag familien med
Photographer
Yadid Levy/Norden.org
Öruggara atvinnuumhverfi fyrir Svía sem starfa í nágrannalöndunum. Hægt verður að nota ökuskírteini frá öðrum ríkjum Norðurlandanna í Danmörku. Þetta er hluti af þeim árangri sem stjórnsýsluhindranaráðið hefur náð á fyrsta helmingi ársins en ráðið starfar nú með víðara starfsumboð en áður.

Norræna Stjórnsýsluhindranaráðið hóf árið 2018 með hvelli og hefur tekist að afnema hindranir sem torvelda frjálsa hreyfingu innan Norðurlandanna.

Eva Tarselius Hallgren, sænskur formaður Stjórnsýsluhindranaráðsins, segist ánægð með að þrjár hindranir er varða atvinnuleysistryggingar verði nú leystar með lagabreytingum í Svíþjóð við lok árshelmingsins.

Aukið öryggi fyrir starfsfólk sem sækir vinnu yfir landamæri

- Hindranir á vinnumarkaðnum og í atvinnulífinu eru í forgangi í starfi Stjórnsýsluhindranaráðsins. Fyrir fólk sem sækir vinnu yfir landamæri er gríðarlega mikilvægt að lenda ekki í vandræðum vegna ólíkra reglna landanna um atvinnuleysistryggingar, segir Eva Tarselius Hallgren.

Meðal annars munu þeir sem eru 64 ára og eldri nú einnig geta orðið meðlimir í sænska atvinnuleysistryggingasjóðnum, en áður gilti aldurstakmark. Einnig verða gerðar breytingar svo að ef stutt hlé verður á aðild einstaklings að sænska atvinnuleysissjóðnum, mun það ekki lengur þýða að viðkomandi missi tekjutengdar bætur.

Þar að auki verður regluverkinu breytt svo að fiskbíllinn í Pajala og aðrir veitingabílar muni geta sótt sér nýja viðskiptavini hinum megin við finnsku landamærin.

Árangur af víðara starfsumboði

Norrænu samstarfsráðherrarnir ákváðu að útvíkka starfsumboð Stjórnsýsluhindranaráðsins fyrir árið 2018. Fulltrúar landanna í ráðinu fengu meðal annars aukið svigrúm til að kalla á fund sinn viðkomandi ráðherra, stjórnvöld og deildir sem geta stuðlað að afnámi stjórnsýsluhindrana.

Og það hefur borið árangur, staðfestir Eva Tarselius Hallgren.

- Með víðara starfsumboði höfum við getað unnið á skilvirkari hátt og starfað nánar með ráðherrum og ýmsum hópum. Við höfum einnig sett tímamörk fyrir 30 stjórnsýsluhindranir sem enn eru eftir og ætlum virkilega að leggja okkur fram um að leysa úr þeim, segir hún.

 

Stjórnsýsluhindranir sem leyst hefur verið úr á fyrri hluta 2018:

  1. Svíar geta nú skráð sig í atvinnuleysistryggingasjóð eftir að hafa náð 64 ára aldri.
  2. Atvinnulausir Svíar hafa hingað til átt á hættu að missa rétt sinn á tekjutengdum bótum ef þeir sækja um aðild að röngum atvinnuleysistryggingasjóði svo að hlé myndast í aðild þeirra.
  3. Ef hlé hefur orðið í aðild starfsfólks að sænskum atvinnuleysistryggingasjóði hefur fólk átt á hættu að missa tekjutengdar bætur.
  4. Hreyfanlegir matsölustaðir hafa ekki mátt vera fyrsti komustaður dýraafurða sem fluttar eru inn til Finnlands.
  5. Viðurkenning á samkynja foreldrum. Vandamálið hefur verið til staðar þegar fólk flytur til Finnlands og Svíþjóðar en hefur ennþá ekki verið leyst af hálfu Svíþjóðar.
  6. Krafa um að skipta út útlenskum ökuskírteinum í Danmörku
  7. Finnsk ungmenni geta nú farið í starfsnám í öðru ríki Norðurlandanna
  8. Bætur vegna ferðakostnaðar sjúklinga sem ferðast milli Noregs, Finnlands og Svíþjóðar (stjórnsýsluhindrunin er þó ekki leyst af hálfu Svíþjóðar)
  9. Réttur til leiðsöguhunds á ferðalögum

Þú getur fengið nánari upplýsingar um þessar stjórnsýsluhindranir og þær sem eftir á að leysa úr í Ársskýrslu Stjórnsýsluhindranaráðsins 2017