Landamæraeftirlit gerir samstarfið erfiðara

04.01.16 | Fréttir
Oresundstog
Photographer
Foto: Metro
Aukið landamæraeftirlit milli Danmerkur og Svíþjóðar er nú hafið. Í fyrsta sinn síðan 1954 þurfa þeir sem ferðast yfir Eyrarsund að sýna skilríki. „Þetta leiðir óhjákvæmilega til bakslags í því góða samstarfi sem miðað hefur auknum hagvexti og þróun á Eyrarsundssvæðinu,“ segir Henrik Dam Kristensen, forseti Norðurlandaráðs.

Aðfaranótt 4. janúar innleiddi sænska ríkisstjórnin ytra landamæraeftirlit fyrir fólk á leið til Svíþjóðar frá Danmörku.

Það hefur í för með sér að allir sem ætla að ferðast yfir Eyrarsund þurfa að sýna vegabréf eða önnur skilríki áður en þeir fara frá Danmörku.

Skýringin er sú að í tengslum við flóttamannavandann sem upp kom árið 2015 hefur Svíþjóð tekið við 145 þúsund hælisleitendum. Þetta hefur leitt til aðstæðna sem fela í sér „alvarlega ógn gegn allsherjarreglu og innra öryggi“ að áliti ríkisstjórnarinnar.

Söguleg ákvörðun

Ákvörðunin er söguleg. Allt frá því að norræna vegabréfasambandið tók gildi á sjötta áratugnum hafa ferðalangar á leið milli Danmerkur og Svíþjóðar ekki þurft að sýna skilríki.

Henrik Dam Kristensen, forseti Norðurlandaráðs, telur að skoðun skilríka muni valda óþægindum fyrir þá sem fara yfir sundið til vinnu eða náms og valda bakslagi í samstarfinu.

„Fyrir þær tugþúsundir manna sem fara yfir Eyrarsund til vinnu eða náms mun ferðatíminn lengjast verulega. Það leiðir óhjákvæmilega til bakslags í efnahagsþróuninni og vinnumarkaðssamstarfinu á Eyrarsundssvæðinu, segir Dam Kristensen.“

Ferðalangarnir sjálfir, stjórnmálamenn og talsmenn atvinnulífsins á Eyrarsundssvæðinu hafa einnig brugðist hart við. 

Í dag, daginn sem eftirlitið hófst, birtu 25 stjórnmálamenn á svæðinu úr röðum hófsamra hægrimanna (Moderaterna) aðsenda grein í blaðinu Dagens Nyheter þar sem þeir segja að eftirlitið verði „eyðileggjandi til lengri tíma litið“ fyrir stærsta samhangandi vinnumarkað Norðurlanda, Eyrarsundssvæðið.

Landamæraeftirlitið hefur mikil áhrif vegna þess að með því er markvissu tuttugu ára starfi snúið við. Það er nokkuð alvarlegt.

Getur haft áhrif á fjárfestingar

Allt frá sjötta áratug síðustu aldar hefur norrænt samstarf mótast af sterkri vitund „um að frjáls för stuðlar að viðskiptum og þekkingarmiðlun sem skilar þeim hagvexti sem velferðin byggir á“. Ef landamæraeftirlitið stendur lengi getur það, að mati stjórnmálamannanna,haft áhrif á aðdráttarafl svæðisins og viljann til fjárfestinga.

Fyrir aðeins nokkrum vikum síðan ákváðu dönsku og sænsku stjórnmálamennirnir sem sitja í Eystrasaltsnefndinni að umbreyta starfsemi sinni í „The Greater Copenhagen & Skåne Committee“ til þess að geta markaðssett Sjáland og Skán sem eitt svæði.

Einn af þeim sem stóðu að baki þessu frumkvæði var aðalborgastjóri Kaupmannahafnar, Frank Jensen.

Hann var jafnframt dómsmálaráðherra í Danmörku árið 2000 þegar Eyrarsundsbrúin var vígð og samstarfssamingur var gerður milli Danmerkur og Svíþjóðar.

Í viðtali við blaðið politiko.dk segir Frank Jensen að nú hafi verið horfið aftur til tímans áður en samþættur vinnnumarkaður Danmerkur og Svíþjóðar varð til.

„Landamæraeftirlitið hefur mikil áhrif vegna þess að með því er markvissu tuttugu ára starfi snúið við. Það er nokkuð alvarlegt,“ segir Frank Jensen.

Danir innleiddu eftirlit

Skoðun skilríkja við Kastrup-flugvöll getur staðið í allt að hálft ár, það er að segja til 4. júlí 2016, en sænska ríkisstjórnin getur hætt eftirlitinu fyrr ef ógnin gegn allsherjarreglu og öryggi í landinu minnkar.

Danska ríkisstjórnin brást við landamæraeftirliti Svía með því að hefja tímabundið eftirlit við landamærin að Þýskalandi mánudaginn 4. janúar.

Finnar hafa nýlega innleitt kröfur um vegabréfaáritun í tengslum við ferjusiglingar frá Þýskalandi og Norðmenn hafa þegar hert innra landamæraeftirlit sitt.