Landamæraeftirlit hefur áhrif á frjálsa för á Norðurlöndum

13.11.15 | Fréttir
Politimænd ved bil
Photographer
Yadid Levy / Norden.org
Sænska ríkisstjórnin ákvað sl. miðvikudag að hefja tímabundið landamæraeftirlit frá og með kl. 12 í dag, fimmtudag. Ákvörðunin var tekin að beiðni sænsku útlendingastofnunarinnar (Migrationsverket) og gildir til að byrja með í tíu daga. Þetta hefur þær afleiðingar að frjáls för á Norðurlöndum hættir að nokkru leyti að gilda.

Vegabréfasambandið er einn af hornsteinum norræns samstarfs og á hverjum degi fara tugþúsundir Dana og Svía yfir Eyrarsundsbrúna til vinnu eða náms. Jakob Schmidth, ráðgjafi á stjórnsýsluhindranaskrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar, staðfestir að ákvörðunin muni hafa áhrif á þennan hóp.

– Meginregla norræna vegabréfasamningsins er að öllum skuli frjálst að fara milli norrænu landanna án þess að framvísa vegabréfi við landamærin. En ef þörf er á vegna öryggis ríkisins eða í þágu alsherjarreglu geta norrænu löndin komið tímabundið á vegabréfaeftirliti á innri landamærunum Norðurlanda. Þetta er það sem er að gerast í Svíþjóð.

Enn hefur ekki verið gengið frá öllum smáatriðum varðandi landamæraeftirlitið. Á blaðamannafundi sem haldinn var á miðvikudagskvöld sagði Ander Ygeman, innanríkisráðherra Svíþjóðar, að þeir sem ætluðu að fara yfir landamærin til Svíþjóðar hefðu þrjá valmöguleika: að sýna gild ferðaskilríki og halda áfram ferð sinni, að sækja um hæli í Svíþjóð eða snúa við. 

Tímabundið landamæraeftirlit frá og með deginum í dag

Yfirvöld búast við því að landamæraeftirlitið muni leiða til biðtíma fyrir þá sem fara yfir landamæri til vinnu eða náms, aðallega á Eyrarsundssvæðinu og einkum fyrstu dagana. Ygeman lagði áherslu á að geta lögreglunnar til að takast á við landamæraeftirlitið hefði verið efld. Óljóst er hvort allir sem fara yfir landamærin verði stöðvaðir. Í 6. grein Schengen-samningsins segir að yfirvöldum sé óheimilt að hafa sérstakt eftirlit með ákveðnum hópum á grundvell til dæmis húðlitar eða þjóðernisuppruna.

Ef þörf er á vegna öryggis ríkisins eða til að tryggja lög og reglu geta norrænu löndin komið tímabundið á vegabréfaeftirliti á innri landamærunum Norðurlanda. Þetta er það sem er að gerast í Svíþjóð.

Beiðnin um landamæraeftirlit kom frá sænska útlendingaeftirlitinu (Migrationsverket) og lögreglan hefur staðfest að ákvæði Schengen-samningsins um ógn við reglu og öryggi í landinu séu uppfyllt. Sænska ríkisstjórnin hefur upplýst framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og nágrannalöndin um ákvörðun sína. Samkvæmt Schengen-samningnum er einungis heimilt að koma á landamæraeftirliti tímabundið. Eftir fyrstu tíu dagana getur ríkisstjórnin ákveðið að framlengja eftirlitið um tuttugu daga í senn, ef ástandið hefur ekki breyst.  

Vegabréfasambandið gildir áfram annars staðar á Norðurlöndum. Norrænir ríkisborgarar eiga rétt á að dvelja í norrænu löndunum og ferðast án vegabréfs á Norðurlöndum.