Líflegar umræður um fiskveiðideilur á vorþingi Norðurlandaráðs

08.04.14 | Fréttir
Sjúrður Skaale
Photographer
Johannes Jansson/norden.org
Sjúrður Skaale, varaformaður umhverfis- og náttúruauðlindanefndar Norðurlandaráðs, segir að nýlegar deilur um veiðar á síld og makríl milli norrænna ríkja sýni að mikilvægt sé að Norðurlöndin setji sér reglur og sameinist um vinnulag þegar kemur að því að leysa slíka deilur. Til líflegra umræðna kom á vorþingi Norðurlandaráðs á Akureyri þegar að staða mála í deilum um síldar- og makrílveiði var rædd.

Deilan um makrílveiðar kom fyrst á dagskrá Norðurlandaráðs árið 2010. Að henni hafa komið Evrópusambandið, Grænlendingar, Færeyingar, Íslendingar og Norðmenn. Norðurlandaráð hefur óskað eftir langtímalausn sem endurspeglaði meginregluna um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda.  Ráðið hefur ennfremur óskað eftir sterkari líffræðilegum og lagalegum rökum til að byggja á kvótaskiptingu sameiginlegra fiskistofna strandríkjanna.

Þann 13. mars 2014 gerðu Evrópusambandið, Norðmenn og Færeyingar samkomulag um makrílveiði á árinu og skiptu með sér veiðikvóta sem nemur rúmri milljón tonna af makríl. Íslendingar voru ósáttir við að vera ekki aðilar að samningnum og hann var einnig gagnrýndur fyrir að veiði á makríl 2014 verði langt yfir ráðlögðu aflamarki Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES).

Á vorþingi Norðurlandaráðs á Akureyri 8. apríl var greinargerð Norrænu ráðherranefndarinnar um stöðu mála í deilum um veiðar á síld og makríl til umræðu.

Í greinargerðinni kemur fram að ráðherranefndin styðji hafrannsóknir á uppsjávarstofnum og almennar lausnir á stórnun þeirra. Í svarinu kemur einnig fram að deilur um kvóta fari nú þegar fram á viðeigandi vettvangi og þess vegna taki Norræna ráðherranefndin málið ekki upp eða telji rétt að það komi þar að.

Í greinargerðinni er að lokum farið yfir ýmis samstarfsverkefni ráðherranefndin kemur að er varða uppsjávarstofna. Þar  má nefna POLSHIFTS-rannsóknarsamstarfið og alþjóðlega ráðstefnu um efnið í Bergen í júnílok.

Líflegar umræður urðu um stöðu mála í deilunum á vorþingi Norðurlandaráðs. Þingmenn lýstu sig sammála um mikilvægi þess að koma á regluverki og vinnulagi til að forðast slíkar deilur innan Norðurlanda, að mikilvægt sé að byggja á vísindalegum niðurstöðum og að sjálfbær nýting sé tryggð.

Sjúrður Skaale frá Færeyjum sagði að þrátt fyrir þetta sýndu deilurnar því miður að norrænt samstarf mistækist of oft þegar virkilega á reyndi og Helgi Abrahamsen, landi hans, minnti á að norrænt samstarf þyrfti að vera óhræddara við að takast á við innri átök.

Ruth Mari Grung frá Noregi sagði leitt að ekki hafi tekist að gera samkomulag þar sem Íslendingar væru aðilar, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Steingrímur J. Sigfússon frá Íslandi gerði athugasemdir við framferði Norðmanna og hélt því fram að Norðmenn væru helstu gerendur í því að halda Íslendingum fyrir utan samkomulagið sem gert var í mars.

Høgni Hoydal og Sjúrður Skaale frá Færeyjum notuðu sama tækifæri til að gera athugasemdir við framferði þeirra sem haldið hafa Færeyingum utan samkomulaga og gerst aðilar að refsiaðgerðum sem beinast gegn Færeyjum.

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Íslands, tók að lokum til máls og þakkaði fyrir góðar umræður um málið á vorþingi Norðurlandaráðs.

Contact information