Löfven reiðubúinn til formennsku 2018

31.10.17 | Fréttir
Stefan Löfven
Photographer
Magnus Fröderberg/Norden.org
„Nýskapandi og örugg Norðurlönd fyrir alla“ verður leiðarstef sænsku formennskunnar á næsta ári. Stefan Löfven kynnti pólitíska forgangröðun sína fyrir þingmönnum og ráðherrum frá öllum Norðurlöndunum, sem voru samankomnir í þinghúsinu í Helsinki í dag.

„Traust og jöfnuður, jafnrétti og gagnsæi – þessir þættir einkenna hina norrænu samfélagsgerð. Útgangspunktur okkar er fjöldi viðfangsefna sem nú er hætt við að auki ójöfnuð í löndum okkar og á milli þeirra,“ sagði Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, þegar hann kynnti formennskuáætlun Svía á þingfundi á Norðurlandaráðsþingi.

Norðurlönd standa við Parísarsamkomulagið

Þegar á fyrstu síðu áætlunarinnar er tekið fram að norrænu löndin standi við Parísarsamkomulagið og heimsmarkmið SÞ um sjálfbæra þróun fyrir árið 2030, þ.e. hina alþjóðlegu samninga sem snúa að því að bjarga loftslagsmálunum og afhenda komandi kynslóðum sjálfbæran heim.

„Róttækra aðgerða er þörf ef við eigum að ná þeim markmiðum sem sett eru í Parísarsamkomulaginu og áætlun Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun til ársins 2030 – bæði á Norðurlöndum og um allan heim. Því viljum við auka samstarfið um lífhagkerfi, sjálfbæran byggingariðnað og loftslagsvænar samgöngur,“ sagði Stefan Löfven. 

Þegar Svíar taka við formennskunni af Norðmönnum um áramótin mun starf að ýmsum öflugum samstarfsverkefnum halda áfram, svo sem framtaksverkefni forsætisráðherranna „Norrænar lausnir á hnattrænum viðfangsefnum“, sem er svar Norðurlanda við áætlun Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun til ársins 2030. 

„Digital North“ 

Stafræn tækniþróun er rauður þráður í formennskuáætlun Svía, líkt og í áætlun Norðmanna nú í ár. Svíar munu áfram beita sér fyrir því að fylgja eftir yfirlýsingu sem ráðherrarnir á sviði upplýsingatækni undirrituðu á ráðstefnunni Digital North í apríl 2017. Markmiðið er að þróa stafrænar lausnir sem auka hreyfanleika fólks, fyrirtækja, vöru og þjónustu á Norðurlöndum.

Auk þess kynnir Svíþjóð fjögur verkefni til þriggja ára á sviðum þar sem talið er að norrænn virðisauki felist í því að skiptast á reynslu á norrænum vettvangi.

Borgir án jarðefnaeldsneytis og fjarhjúkrun

Verkefnin verða á eftirfarandi sviðum:

  1. Að styðja þróun lausna í fjarhjúkrun. Undirmarkmið er að árið 2021 hafi tekist að skapa tæknilegar forsendur fyrir því að skiptast á rafrænum lyfseðlum milli Norðurlanda.
  2. Aðgerðir til að ná til ungmenna á jaðri samfélagsins.
  3. Að greiða fyrir innleiðingu loftslagsvænna samgangna í borgum.
  4. Að skapa vettvang fyrir sjálfbæran arkitektúr og hönnun og aukna byggingu timburhúsnæðis.

Jafnrétti á vinnumarkaði framtíðar

Svíar munu efna til fjölda norrænna ráðstefna á formennskuárinu, meðal annars um áhrif stafrænnar tækniþróunar og vélmennavæðingar á vinnumarkaðinn, um erfiðleika sem konur af erlendum uppruna standa frammi fyrir þegar þær vilja komast út á norrænan vinnumarkað, og alþjóðlegrar ráðstefnu um karla, jafnrétti og karlmennsku.

Einnig munu Svíar eiga frumkvæði að norrænni rannsókn sem liggja mun til grundvallar áframhaldandi starfi að jafnrétti í lífeyrismálum.