Document Actions

Lögfræðiprófessor: Danir brjóta gegn norrænum sáttmála með brottvísunum

Norðurlandaráð hefur fengið álit lögfræðinga á réttmæti þess að Danir vísa úr landi norrænum ríkisborgurum. Kirsten Ketscher prófessor í lögfræði við Hafnarháskóla telur að Danir hafi brotið gegn viðurkenndum evrópskum og norrænum sáttmálum. Hún telur að skýringin sé ofuráhersla á danska réttarhefð og að sú réttarþróun hafi orðið til vegna of strangrar túlkunar á lagabókstafnum.

02.11.2010
Ljósmyndari
Magnus Fröderberg/norden.org

Grundvallarréttindi allra Norðurlandabúa er rétturinn til frjálsrar farar og búsetu á Norðurlöndum. Brottvísun norrænna borgara frá Danmörku af þeirri ástæðu einni að þeir hafi þegið félagsaðstoð, er réttarfarslega vafasöm og brot á fyrirliggjandi sáttmálum, segir Kirsten Ketscher prófessor í lögfræði við Hafnarháskóla.

Myndband: Kirsten Ketscher, Hans Wallmark, Martin Kolberg og Ville Niinistö sitja fyrir svörum.

Hún segir að brottvísun norrænna borgara samræmist ekki norrænum sáttmálum og tilskipun ESB um dvalarrétt. Í Danmörku er vísað til lagahefðar þegar fjallað er um brottvísanir, en samkvæmt réttarþróun síðustu ára og áðurnefndum sáttmálum er lagahefð ekki lagalega gild ástæða til brottvísunar.

Hún bendir á að "félagslegir ferðamenn" fyrirfinnist ekki á Norðurlöndum. Ósk Norðulandabúa um að setjast að í öðru norrænu ríki sé til komin af öðrum ástæðum en þeirri að sækjast eftir félagsbótum. Norðurlandabúar flytji vegna vinnu, menntunar eða til að stofna fjölskyldu eins og tilfellið var um sænsku konuna sem var vísað frá Danmörku fyrr á þessu ári.

Hans Wallmark, fulltrúi í bogara- og neytendanefndinni, telur "undarlegt að réttarhefð í Danmörku sé svo frábrugðin hefð í öðrum norrænum ríkjum og að það skapi vandamál þegar markmiðið með Norðurlandasamstarfinu sé einmitt að samræma lög og færa fólk nær hvert öðru, greiða fyrir frjálsri för og einfalda Norðurlandabúum lífið".

Ville Niinistö, formaður borgara- og neytendanefndarinnar, segir að málið verði rætt í almennum umræðum á Norðurlandaráðsþingi á miðvikudag. Hann vill að ráðið "taki málið í sínar hendur og hefur lagt fram tillögu á þinginu um að ríkisstjórnir norrænu ríkjanna haldi málinu vakandi og ræði ólögmætar brottvísanir við dönsku ríkisstjórnina. Á þann hátt fáum við uppbyggjandi umræðu um markmið norrænnar samvinnu og hvernig við vinnum að því að koma á landamæralausum Norðurlöndum".

Tengiliðir