Miklir möguleikar í Norðurlöndum sem tökustað kvikmynda

25.01.17 | Fréttir
Norges kulturminister Linda Hofstad Helleland mødtes med Udvalget for Kundskab og Kultur i Norden i Oslo 25. januar under Nordisk Råds møder.
Photographer
Louise Hagemann
Sá möguleiki að koma á fót samnorrænu hvatakerfi í því skyni að laða erlenda kvikmyndaframleiðendur til Norðurlanda var til umræðu hjá stjórnmálamönnum Norðurlandaráðs og menningarmálaráðherra Noregs, Lindu Hofstad Helleland, á fundi þeirra í Ósló á miðvikudag.

Menningarmálaráðherrann tjáði fulltrúum í norrænu þekkingar- og menningarnefndinni að á fundi sem hún hefði átt með norrænum kollegum sínum í Lundúnum þann 13. janúar hefði hún beðið þá að kanna möguleikana á því að koma á fót samnorrænu hvatakerfi fyrir kvikmyndaframleiðendur. Noregur og Finnland hafa þegar tekið sér Ísland til fyrirmyndar og komið á fót hvatakerfum sem felast í því að kvikmyndaframleiðslufyrirtæki fá 25% endurgreidd af kostnaði við kvikmyndagerð í viðkomandi landi. Norrænu menningarmálaráðherrarnir munu ræða málið á næsta fundi sínum í apríl.

„Ég sé mikla möguleika í því að markaðssetja Norðurlönd sem tökustað kvikmynda með sameiginlegu hvatakerfi,“ sagði Jorodd Asphjell, formaður norrænu þekkingar- og menningarnefndarinnar, eftir fund sinn með menningarmálaráðherra Noregs auk Truls Kontny og Mikael Svensson, sem eru forseti og varaforseti stofnunarinnar Scandinavian Locations, en fyrr um daginn höfðu þeir flutt erindi fyrir fulltrúa í þekkingar- og menningarnefnd og hagvaxtar- og þróunarnefnd Norðurlandaráðs.

Fulltrúar Scandinavian Locations sögðu stjórnmálamönnunum frá hinum sívaxandi áhuga á Norðurlöndum sem töku- og áfangastað. Jafnframt lögðu þeir áherslu á að samnorrænt hvatakerfi myndi auðvelda markaðssetningu Norðurlanda sem tökustaðar umtalsvert.

Mikil efnahagsleg tækifæri felast í því að fá fleiri erlenda kvikmyndaframleiðendur til að taka upp myndefni á Norðurlöndum, meðal annars í formi starfa fyrir þá íbúa landanna sem starfa í kvikmyndageira, auk margvíslegra afleiddra tekna í hótelbransanum og víðar. Truls Kontny nefndi kvikmyndaaðlögun Hollywood á skáldsögunni Snømannen eftir Jo Nesbø, sem verið er að taka upp í Noregi, sem dæmi um gríðarmikil afleidd umsvif af slíku verkefni. Auk sjálfrar framleiðslunnar eru fjölmargar kvikmyndir og sjónvarpsþáttaraðir teknar á Norðurlöndum, sem stuðlar einnig að markaðssetningu landanna sem spennandi og nýstárlegs áfangastaðar ferðamanna.

Þekkingar- og menningarnefndin og hagvaxtar- og þróunarnefndin bíða nú svara frá norrænu menningarmálaráðherrunum varðandi möguleika á því að koma á fót samnorrænu hvatakerfi fyrir kvikmyndaframleiðslu.