Næring á norræna vísu

17.11.14 | Fréttir
Reduce you foodprint
Photographer
Lii Ranniku
Nýr vefur gefur yfirlit yfir norrænt samstarf á sviði næringar, allt frá áætlanagerð og eftirliti til næringarrannsókna og neytendamerkinga. Vefurinn verður opnaður á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um næringu (UN’s Second International Conference on Nutrition) sem haldin verður 19-21. nóvember.

Norræna ráðherranefndin tekur þátt í ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um næringu (ICN2) sem haldin verður í Róm 19.-21. nóvember næstkomandi.

Í tengslum við ráðstefnuna verður kynntur nýr vefur sem lýsir því hvernig Norðurlönd skipuleggja aðgerðir til að kanna og bæta heilsu og næringu almennings í einstökum löndum og svæðisbundið.

Á vefnum www.nordicnutrition.org er samsafn af efni sem getur orðið öðrum innblástur. Þar hefur verið dregin saman sérfræðiþekking um næringu frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð auk Grænlands, Færeyja og Álandseyja.

Úrlausnarefni á sviði næringar og heilsu

Vefurinn um næringu á norræna vísu (Nutrition the Nordic Way) kynnir hvernig Norræna ráðherranefndin hefur unnið að því að búa til samhangandi og heildræna aðferð til að takast á við úrlausnarefni á sviði næringar og heilsu á 21. öld.

Vefurinn verður kynntur á hliðarviðburði ICN2-ráðstefnunnar, Tekist á við ofþyngd og offitu (Adressing Overweight and Obesity), sem haldinn verður í samstarfi við sendinefndir Brasilíu, Þýskalands og Noregs 20. nóvember í höfuðstöðvum Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Heildræn nálgun

Á vefnum er spurt hvert eigi að stefna í málum sem varða næringu og heilsu og kannað hversu langt Norðurlönd eru komin á ýmsum sviðum.. Einnig er farið yfir það hvað við eigum að borða og hverjir hollustu kostirnir eru.

Þannig er farið yfir starfsemina allt frá „Norrænni framkvæmdaáætlun um hollustu og lífsgæði með mataræði og líkamlegri hreyfingu“ (Nordisk Handlingsplan for bedre sundhed og livskvalitet gennem mad og fysisk aktivitet), svæðisbundið eftirlit og til þeirrar miklu vinnu sem lögð er í Norræn næringarviðmið (Nordic Nutrition Recommendations) og norræna matvælamerkið Skráargatið sem bendir á hollasta kostinn innan einnar tegundar fæðu eða vöru.

Önnur starfsemi

Norræna ráðherranefndin hefur jafnframt fjármagnað önnur rannsóknarverkefni sem snúast um hollt og sjálfbært mataræði og ýmsa aðra starfsemi sem snertir næringu, einkum í tengslum við Nýja norræna matargerðarlist og matarsóun.

Nánari upplýsingar má nálgast á www.nordicnutrition.org.