Document Actions

Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2013 veitt fyrir baráttu gegn matarsóun

Selina Juul hlýtur Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2013 fyrir baráttu sína gegn matarsóun á vettvangi neytendahreyfingarinnar „Stop Spild Af Mad“.

30.10.2013
Ljósmyndari
Magnus Froderberg/norden.org

Vissir þú að þriðjungur þeirra matvæla sem framleidd eru í heiminum enda í ruslatunnunni? Selina Juul, handhafi Náttúru- og umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs, er stofnandi neytendahreyfingarinnar „Stop Spild Af Mad“, sem er stærsta sjálfboðahreyfing Danmerkur sem berst gegn matarsóun.

„Framlag hennar er ómetanlegt,“ segir í rökstuðningi Norðurlandaráðs.

Ákveðið hafði verið að Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2013 yrðu veitt fyrirtæki, samtökum eða einstaklingi sem þróað hefði vöru, uppfinningu eða með öðrum hætti aukið skilvirka nýtingu auðlinda og þar með stuðlað að því að draga úr neikvæðum áhrifum mannsins á náttúruna.

Selinu Juul hefur tekist að koma af stað umræðu um matarsóun, ekki aðeins í heimalandi sínu Danmörku, heldur líka á Norðurlöndum sem heild,  og á vettvangi Evrópusambandsins og Sameinuðu þjóðanna. Juul vinnur í sjálfboðavinnu sem talsmaður hreyfingarinnar sem hún stofnaði sjálf árið 2008.

Þrautseigja Selinu Juul og annarra sem vakið hafa athygli á þessum vanda hefur leitt til þess að dregið hefur úr sóun á mat í Danmörku. „Með hugmyndaflugi, eldmóði og vinnusemi hefur Selinu Juul tekist að vekja athygli á matarsóun og þar með stuðlað að betri nýtingu auðlinda og dregið úr neikvæðum áhrifum manna á náttúruna,“ segir í rökstuðningi dómnefndarinnar.

Matarsóun er jafnframt siðferðislegt vandamál; milljarður manna sveltur en samtímis er 1,3 milljörðum tonna af mat fleygt árlega.

Nánari upplýsingar um verðlaun Norðurlandaráðs

Nánari upplýsingar um Selinu Juul og neytendahreyfinguna „Stop Spild Af Mad

Tengiliðir

Frøydis Johannessen
Sími +45 21 71 71 44
Netfang frjo@norden.org