Nefndartillaga: Norðurlönd ættu að grípa til sameiginlegra aðgerða gegn hagræðingu úrslita

25.01.18 | Fréttir
Johanna Karimäki
Photographer
Magnus Fröderberg/Norden.org
Norðurlöndin ættu að vinna saman gegn hagræðingu úrslita. Það er tillaga norrænu þekkingar- og menntanefndarinnar sem vill koma á fót kerfi sem útilokar íþróttafólk sem hefur tekið þátt í hagræðingu úrslita í einu norrænu landi frá því að halda áfram að stunda íþrótt sína í öðru landi.

Nefndin vill að Norðurlöndin vinni að því að draga úr hagræðingu úrslita á sama hátt og unnið er gegn lyfjanotkun í íþróttum þar sem útilokun frá þátttöku gildir í öllum löndunum. Nú er ekkert sem kemur í veg fyrir að íþróttafók sem hefur verið útilokað frá þátttöku í einu landi vegna hagræðingar úrslita geti haldið áfram að iðka íþrótt sína í öðru landi. Verði tillagan samþykkt verða Norðurlöndin fyrsta svæði heims þar sem þjóðir vinna saman gegn hagræðingu úrslita.

Norrænu íþróttasamtökin eru sammála um að hagræðing úrslita sé meðal alvarlegustu ógna sem steðja að íþróttum og líta þannig á að mikil þörf sé á gagnkvæmri viðurkenningu á viðurlögum vegna þeirra. Norrænu íþróttasamtökin og ráðherrar íþróttamála munu koma saman haustið 2018, ásamt Ólympíunefndinni og öðrum sérfræðingum, til þess að finna leiðir sem virka á öllum Norðurlöndum.

Nefndin lætur sér annt um börn og ungmenni

Á fundi í Stokkhólmi 24. janúar stóð nefndin einhuga að baki tillögunni um aðgerðir gegn hagræðingu úrslita sem lögð var fram af flokkahópi jafnaðarmanna í Norðurlandaráði. Í tillögunni hvetur nefndin norrænu íþróttamálaráðherrana til þess að styðja vilja ólympíunefnda og íþróttasambanda landanna til að koma á fót samnorrænu kerfi sem tekur á hagræðingu úrslita.

Nefndin hefur sérstaklega áhyggjur af börnum og ungmennum sem vaxa úr grasi með hagræðingu úrslita sem vaxandi vandamál og hefur áhrif á gildi þess að vinna saman að betri menningu innan íþróttanna.

„Hin útbreidda hagræðing úrslita leiðir til óheppilegrar menningar sem mörg börn og ungmenni vaxa upp við og þetta er ástæða þess að við höldum áfram að vinna að því að útrýma vandamálinu,“ segir Johanna Karimäki, formaður norrrænu þekkingar og menntamálanefndarinnar.

Ákvörðun nefndarinnar fer nú til áframhaldandi meðferðar í Norðurlandaráði.