Nordic Innovation House opnað í New York

21.09.17 | Fréttir
Invigning Nordic Innovation House NY
Photographer
Anna Rosenberg
Á miðvikudagskvöld var Nordic Innovation House, nýsköpunarsetur á Manhattan í New York, vígt að ráðherrum frá fjórum norrænum löndum viðstöddum. Dagfinn Høybråten klippti á borðann og lýsti þeirri von sinni að framtakið skilaði sér í sjálfbærum lausnum við félagslegum viðfangsefnum.

„Hagkerfi allra norrænu landanna koma vel út í alþjóðlegum samanburðarrannsóknum á nýskapandi hagkerfum. Ég tel mikilvægt að nýta þann styrkleika okkar til að skapa sjálfbæran hagvöxt og takast á við hnattrænar áskoranir,“ sagði Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, í opnunarávarpi sínu.

Vísaði hann meðal annars til örrar þéttbýlisvæðingar víða um heim sem yki eftirspurn eftir snjöllum, sjálfbærum borgum.

Að byggja upp norrænt sprotaumhverfi

Tilgangur Nordic Innovation House er að styðja við norræna nýsköpun í New York, aðstoða þá sem fást við hana við að koma hugmyndum sínum í framkvæmd og veita þeim besta veganesti sem völ er á fyrir sprotafyrirtæki sín.

Markmiðið er að byggja upp norrænt sprotaumhverfi í New York, svipað því sem myndaðist kringum Nordic Innovation House í Kísildalnum á vesturströnd Bandaríkjanna.

Nýsköpunarsetrið er fjármagnað af öllum norrænu ríkjunum fimm gegnum Norrænu ráðherranefndina og Norrænu nýsköpunarmiðstöðina. Utanríkis- eða viðskiptaráðherrar frá fjórum ríkjanna voru viðstaddir vígsluna.

New York tekur nýsköpun fagnandi

Viðstödd voru utanríkisráðherra Dana, Anders Samuelsen, ráðherra utanríkisviðskipta í Finnlandi, Kai Mykkänen, utanríkisráðherra Noregs, Børge Brende, utanríkisráðherra Svíþjóðar, Margot Wallström og fyrrum ráðuneytisstjóri íslenska utanríkisráðuneytisins, Stefán Haukur Jóhannesson.

Í New York er næststærsta sprotaumhverfi heims og það er í örari vexti en á nokkrum öðrum stað. New York-borg hefur fjárfest í innviðum sem styðja við innlenda og erlenda nýsköpun og taka henni fagnandi.

Hefst sem tilraunaverkefni

Nordic Innovation House í New York mun bjóða norrænum sprotafyrirtækjum aðstoð í lögfræðilegum málum, skattamálum, atvinnuleyfismálum og á fleiri sviðum sem varða það að festa sig í sessi á bandarískum markaði.

Fyrstu þrjú árin mun nýsköpunarsetrið vera tilraunaverkefni.

Framkvæmdastjóri Norrænu nýsköpunarmiðstöðvarinnar, Svein Berg, lýsti stuðningi sínum við verkefnið:

„Á Norðurlöndum eru margir hæfileikaríkir frumkvöðlar að stíga sín fyrstu skref en eitt stærsta viðfangsefni okkar felst í því að hjálpa fleirum þeirra að vaxa og dafna. Lausnin kann að felast að hluta í Norræna nýsköpunarsetrinu í New York,“ sagði Svein Berg.