Norðurlandaráð: Bregðist ESB ekki við munu Norðurlönd taka forystu um daglegt líf án eiturefna

27.09.16 | Fréttir
Takist Evrópusambandinu ekki að innleiða bann við notkun á hormónaraskandi þalötum fyrir árslok 2017 eiga Norðurlönd að innleiða samsvarandi bann, sem gildi um norrænar vörur. Þessi tilmæli eru á meðal tillagna um daglegt líf án eiturefna á Norðurlöndum, sem Norðurlandaráð beinir til norrænu ríkisstjórnanna.

Norðurlandaráð leggur til almennt bann innan ESB við fjórum skaðlegustu þalötunum (DEHP, DBP, BBP og DIBP) í vörum sem börn komast í snertingu við. Komi ESB slíku banni ekki til leiðar fyrir árslok 2017 leggur Norðurlandaráð til að ríkisstjórnirnar innleiði almennt bann við þessum þalötum frá og með árinu 2019.

Hanna Kosonen (C, flokkahópi miðjumanna), formaður norrænu sjálfbærninefndarinnar, sér ýmsa möguleika til að auka öryggi í daglegu lífi í þeim tilmælum sem nú eru til umfjöllunar.

„Mörg hinna skaðlegu efna sem fyrirfinnast í andrúmsloftinu koma úr byggingarefnum. Við beinum því þeim tilmælum til norrænu ríkisstjórnanna að semja reglur gegn notkun heilsuspillandi efna og efnasambanda í byggingavörum sem notaðar eru í gólf, veggi og loft,“ segir Hanna Kosonen.

Opinber norræn skrá yfir óæskileg efni og efnasambönd

Til þess að greiða fyrir því ferli að hætta notkun óæskilegra efna og efnasambanda leggur Norðurlandaráð til að norrænu ríkisstjórnirnar láti semja opinbera norræna skrá yfir þau. Bindandi reglur í hverju norrænu landi eigi að skylda innflytjendur og framleiðendur til þess að gefa upp hvort vörur þeirra innihalda efni á skránni.

Norðurlandaráð beinir einnig þeim tilmælum til ríkisstjórnanna að beita sér fyrir breytingum á löggjöf til að koma í veg fyrir innflutning til ESB/EES-landanna á efnum og efnasamböndum sem bönnuð eru í löndunum. 

Mörg hinna skaðlegu efna sem fyrirfinnast í andrúmsloftinu koma úr byggingarefnum. Við beinum því þeim tilmælum til norrænu ríkisstjórnanna að semja reglur gegn notkun heilsuspillandi efna og efnasambanda í byggingavörum sem notaðar eru í gólf, veggi og loft.

Norrænt þekkingarsetur um daglegt líf án eiturefna

Í tilmælunum er talað fyrir því að stofnað verði norrænt þekkingarsetur um daglegt líf án eiturefna, sem hafi það hlutverk að huga að eiturefnalausum staðgönguefnum til að nota í stað þeirra skaðlegu efna sem fyrirfinnast allt í kringum okkur. Einnig er lagt til að viðmið umhverfismerkisins Svansins verði endurskoðuð reglulega, til að auðvelda neytendum að velja vörur sem séu hvorki skaðlegar heilsu þeirra né umhverfinu.

Tillögurnar um daglegt líf án eiturefna eru afurð langs ferlis, þar sem Norðurlandaráð hefur leitað álits m.a. neytendasamtaka, iðnaðar og norrænu ríkisstjórnanna varðandi möguleika Norðurlanda til sameiginlegra aðgerða gegn óæskilegum efnum og efnasamböndum.

„Það er mikilvægt að við höfum náð samkomulagi um að leita bæði til ESB og norrænu ríkisstjórnanna, vegna þess að breytingar á löggjöf um efni og efnasambönd ganga afar hægt á vettvangi ESB,“ segir Christian Juhl (EL, flokkahópi vinstri sósialista og grænna) í norrænu velferðarnefndinni.

Tilmælin um daglegt líf án eiturefna verða rædd á þingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn í nóvember og því næst send áfram til norrænu ríkisstjórnanna og Norrænu ráðherranefndarinnar.