Norðurlandaráð frestar hringborðsumræðum með rússneskum þingmönnum

26.03.15 | Fréttir
Höskuldur Þórhallsson
Photographer
Johannes Jansson/norden.org
Forsætisnefnd Norðurlandaráðs hefur greint frá því að Norðurlandaráð vilji fresta hringborðsumræðum með rússneskum þingmönnum og námsferð norrænna þingmanna til Petrozavodsk í lýðveldinu Karelíu í Norðvestur-Rússlandi, sem voru á dagskrá nú í vor.

„Kosningar í Finnlandi og almennur erill í norrænu þjóðþingunum eru meginástæða þess að við viljum fresta hringborðsumræðunum sem fara áttu fram í Moskvu í apríl,“ segir Höskuldur Þórhallsson, forseti Norðurlandaráðs.

Á síðasta ári varð ástandið í Úkraínu til þess að ráðið ákvað að fresta hringborðsumræðum sem fara áttu fram í Stokkhólmi á vordögum 2014. Engar eiginlegar hringborðsumræður fóru fram á síðasta ári, en víðtækari fundur með rússneskum þingmönnum var haldinn á þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi í október.

Í janúar ákváðu rússnesk yfirvöld að skilgreina skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar í Rússlandi sem „erlendan aðila“, sem var óásættanlegt að mati norrænu samstarfsráðherranna og leiddi til þess að ákveðið var að leggja niður starfsemi ráðherranefndarinnar í Rússlandi. Þessi mál voru til umræðu á örþingi Norðurlandaráðs sem fór nýverið fram í Kaupmannahöfn.